29.12.1916
Neðri deild: 10. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

18. mál, rannsókn á hafnarstöðum

Gísli Sveinsson:

Jeg ætla að eins að fara nokkrum orðum um brtt. þá, er jeg hefi borið fram við till. sjávarútvegsnefndar.

Mjer var kunnugt um þingsályktunartill. frá 1915, sem vitnað er í.

Enda þótt jeg sje fulltrúi þess kjördæmis, sem einna mesta þörf hefir á, að rannsakaðir sje hafnarstaðir, þá ætlaði jeg þó ekki að þessu sinni að koma fram með till. um það. En fyrst sjávarútvegsnefndin hefir riðið á vaðið með till. sinni, þá vildi jeg síst að staðir þeir, sem greindir eru í brtt. minni verði útundan, sem sje Vík og Dyrhólaey. Enda hefir hafnarverkfræðingur litið á þá staði lítilsháttar, en rannsókn alla vantar. Vona jeg að ekki verði þessu máli slept, fyr en sem flestir staðir hjer við land hafa verið rannsakaðir.

Annars liggur næst að rannsaka þá staði, sem í þjóðbraut eru og virðist misráðið að fara fram hjá þeim athugunarlaust, en báðir þessir staðir liggja beint fyrir viðkomu skipa og í leið verkfræðingsins, ef hann á að fara austur með.

Í Vík geta skip komið við í góðu veðri; verða þó að liggja úti á hafi. En það er trú manna, að gjöra megi þar nýta höfn, við svonefndan Bás, með litlum tilkostnaði, og sömuleiðis gott lægi í Dyrhólaey. Það þarf ekki orðum að því að eyða, til hve mikils gagns þetta væri fyrir Skaftfellinga og Rangæinga, og yfirleitt suðurland alt ásamt Vesmannaeyjum, ef staðir þessir yrðu eitthvað lagaðir, enda rekur bráðasta nauðsyn til þess, hvort sem litið er til flutninga eða fiskveiða. Þetta mundi ekki heldur verða neitt miljónaverk. Einkum er það fyrir vjelbáta og smærri skip, sem laga þarf í Vík og með suðurströndinni. Væri það gjört, mundi þeim stöðum borgið. Jeg get lýst ánægju minni yfir því, að sjávarútvegsnefndin hefir tekið svo vel í mál þetta, og vona því, að brtt. mín, ásamt aðaltill., verði samþ.