29.12.1916
Neðri deild: 10. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

18. mál, rannsókn á hafnarstöðum

Skúli Thoroddsen:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram viðaukatill. á þgskj. 34,sem fer fram á það, að rannsökuð verði innsigling og hafnarstæði í Þaralátursfirði á Ströndum. Gjörði jeg það eftir tilmælum jarðareiganda. Tilmælum hans fylgja meðmæli frá 7 kunnugum skipstjórum. Skal jeg með leyfi hæstv. forseta lesa upp brjef þeirra. Það er á þessa leið:

„Vjer undirritaðir lýsum hjer með yfir því, að vjer teljum mjög nauðsynlegt, að siglingaleiðin inn á Þaralátursfjörð verði mæld hið allra bráðasta, svo og fjörðurinn sjálfur.

Þaralátursfjörður er eini fjörðurinn milli Horns og Geirólfsgnúps, sem veitir örugga höfn í öllum áttum, og þeir sem kunnugir eru, þekkja tvær leiðir öruggar inn á fjörð þenna.

Þar er örugg höfn, þegar inn er komið, og haldbotn ágætur. En hvorttveggja er ómælt, fjörðurinn sjálfur og leiðin inn þangað. Svo að þeim einum getur komið höfn þessi að haldi, sem þar eru kunnugir, en þeir mega heita mjög fáir. En á hinn bóginn getur innsiglingin verið hættuleg ókunnugum, vegna skerja, sem eru úti fyrir fjarðarmynninu.

Úti fyrir Þaralátursfirði eru hin bestu síldarmið og þorskveiði mikil, einkum síðari hluta sumars. Er þar þá jafnan mikið af skipum ,og gæti þeim oft verið mjög hentugt og jafnvel lífsnauðsyn að leita hafnar í Þaralátursfirði, ef skyndilega hvessir af hafi. En eins og áður er sagt, er leiðin ómæld, svo að fjörðurinn getur ekki orðið athvarfsstaður annarra en þaulkunnugra manna, nema siglingaleiðin verði mæld.

Í sambandi við þetta mætti taka fram, að seinni part sumars gengur fiskur afar-grunt út af firði þessum og víkunum þar í kring, en sökum þess, að fáum er innsiglingin kunn á fjörðinn, og engin önnur höfn á þessu umgetna svæði, verða skip, sem stunda fiskveiðar á þessu svæði, að halda sig langt frá landi og fara þess vegna á mis við góðan afla, oft og einatt.

Ísafirði, 18. nóv. 1916.

J. Brynjólfsson (skipstjóri) Magnús Örnólfsson (skipstjóri).

Eiríkur Einarsson (skipstjóri). Halldór Sigurðsson (skipstjóri).

Benedikt Jónss. (skipstjóri). Guðm. Þ. Guðmundss. (skipstjóri).

Jón Pálsson (skipstjóri).“

Þetta brjef, sem er frá kunnugum mönnum, er svo ljóst, að óþarfi er miklu við að bæta.

Eins og þar er tekið fram, þá er þetta eina lífhöfnin á þeim slóðum, er í brjefinu getur. Fiskimönnum þar vestra hefir verið staðurinn kunnugur frá ómunatíð. Þegar á Sturlungaöld, var Þaralátursfjörður þektur sem lífhöfn, enda segir í Sturlungu að „þar sje góð höfn“. En vegna þess, að fjörðurinn hefir ekki verið mældur, er ekki fyrir aðra en nákunnuga að komast þangað inn.

Enn fremur er þar þorskur mikill fyrir landi og síldarmið svo góð, að jafnvel eftir venjulegan síldveiðatíma liggur síld þar inni á firðinum þó nokkura hríð. Aðalatriðið er það, að rannsökuð verði innsiglingin á fjörðinn, og svo hafnarstæðið. Jeg er þess fullviss, að það mundi margborga sig.

Jeg er háttv. framsm. (Sv. Ó.) þakklátur fyrir hvað hann tók vel í mál þetta, og vona það nái fram aðganga.