29.12.1916
Neðri deild: 10. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

18. mál, rannsókn á hafnarstöðum

Þorleifur Jónsson:

Af því jeg er kunnugur á þeim stöðum, sem um er að ræða í aðaltill., þá vil jeg leyfa mjer að fara um þetta mál fáeinum orðum.

Hafnir þær eða lendingar, sem um getur verið að ræða samkvæmt tillögunni, eru Skinneyjarhöfði, Hornafjörður, Hornshöfn, Papaós og Hvalneskrókur. Að líkindum eru álitlegust hafnarstæði í Hornafirði og Papaósi. Í Hornafirði er enda allgóð höfn fyrir vjelbáta. Bagar helst straumur í ósnum og aðgrynni að bryggju um fjöru. En í Hornafirði er allrúmgóð lega fyrir vjelbáta, og gott hlje þar á legunni.

En þótt allgóð vjelbátahöfn sje á Hornafirði, þá væri mjög æskilegt, að geta fengið aðra bátahöfn í „Lónbugtinni“, milli Horns og Hvalness, og líklegt, að þá væri helst um Papaós að ræða. Papaós og Hornafjörður mundu bæta hvor annan nokkuð upp. Í sunnanátt er ilt að lenda í Hornafirði, en þá er Papaós betri; aftur á móti er slæmt að lenda í Papaósi í austanátt, en þá er Hornafjörður góður. En jeg vil leggja áherslu á, að nauðsynlegt sje, að vinda bráðan bug að því, að skoða allar þessar hafnir. Enginn vafi leikur á því, að góð fiskimið eru þarna út undan; þar að auki stutt til þeirra og aflasælt.

Mundi það mjög æskilegt fyrir Austur-Skaftfellinga, og Austfirðinga yfir höfuð, að eiga athvarf fyrir vjelbáta á þessu svæði á vetrarvertíðinni.

Jeg vil geta þess, að í fyrra höfðu 3 vjelbátar frá Eskifirði útihald í Hornafirði. Gæftir voru um þriggja viknaskeið á Góunni, og öfluðu þessir bátar svo vel, að sagt var, að hlutur þeirra væri engu lakari eftir þenna stutta tíma en eftir meðal vertíð, alt sumarið á Austfjörðum, þegar tekið var tillit til þess, að útgjörðarkostnaður, svo sem olíueyðsla o, s. frv., var mjög lítill.

Þar var líka haldið úti nokkrum róðrabátum, með 6—9 mönnum á bát, og urðu hlutir upp að 300 kr. virði.

Þetta sýnir, að vert er að gjöra eitthvað fyrir staði þessa, og nauðsyn að sem fyrst sje rannsakað.

Nú stendur til, að nokkru fleiri vjelbátar komi úr Austfjörðum suður í vetur en voru í fyrra. Hafa að minsta kosti margir sótt um það, en bagar mikið húsnæðisleysi.

Lýk jeg svo máli mínu með því, að taka það fram, að sem kunnugur maður vildi jeg benda á, að hjer er ekki um neitt smávegis atriði að ræða, heldur mál, sem er mjög mikilsvert.