29.12.1916
Neðri deild: 10. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

18. mál, rannsókn á hafnarstöðum

Matthías Ólafsson:

Þegar þingsályktunartill. um samskonar efni og þetta var samþ. á þinginu 1915, þá bjóst jeg ekki við, að hægt yrði að hnýta sig aftan í hana með fleiri atriði sama efnis.

Jeg skal lýsa því yfir, að jeg álít alls ekki ofsögum sagt af því, hve mikinn hagnað landið getur haft af því, að hafnir kæmust upp sem víðast. Jeg er þess fullviss, að framleiðslan myndi þá aukast svo að skifti miljónum. Um brtt. á þgskj. 25 get jeg ekki dæmt, hve miklar vonir sje um, að hafnir verði bygðar þar, því jeg er þar með öllu ókunnur, en um Þaralátursfjörð veit jeg, að þar er höfn örugg, en innsigling aftur á móti mjög vandrötuð. En hvað sem nú um þetta er, þá tel jeg landinu það vera beinlínis skylt, að láta mæla upp alla þá staði, sem fiskur er líklegur að vera úti fyrir, og sem tilmæli koma um, að mældir verði.

Úr því að jeg stóð upp, þá vildi jeg nota tækifærið til þess, að minna hina nýju stjórn á, að samþ. var hjer í fyrra þingsál. um að láta rannsaka hafnarstæði í Þorlákshöfn. Hæstv. ráðherra (E. A.) hefir tjáð mjer, að hann hafi beðið norskt verkfræðingafjelag að annast framkvæmdir á því verki, en hvers vegna það hefir dregist úr hömlu, veit jeg ekki. Jeg hefi átt tal um þetta við Kirk hafnarverkfræðing hjer, og telur hann víst, að byggja megi höfn í Þorlákshöfn, þótt ekki sje hann viss um, að áætlun hr. Jóns Ísleifssonar verkfræðings sje nógu há. Annars veit jeg úr öðrum stað, að líkindi eru til, að etazráð Monberg muni vilja gjöra samninga um þá hafnarbyggingu, einkum ef það má dragast þangað til Reykjavíkurhöfnin væri búin, og það hygg jeg að varla geti komið til mála, að höfnin verði bygð meðan ófriðurinn stendur yfir, því nú er alt efni svo dýrt, bæði járn og cement, en af því hvort-tveggja þarf mikið.

Eitt vildi jeg enn taka fram í þessu sambandi, og það er það, að ef vjer viljum verða framfaraþjóð, þá verðum vjer að taka stórlán á næstunni og byggja fyrir það hafnir víðsvegar um landið. Jeg veit það fyrir víst, að fáir peningar muni gefa betri vöxtu en þeir, sem lagðir yrðu í slík fyrirtæki.