08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

30. mál, lán til flóabáta

Gísli Sveinsson:

Jeg vil þakka háttv. samgöngumálanefnd fyrir undirtektir þær, sem beiðni Vestur-Skaftfellinga hefir fengið. Í raun rjettri eru það ekki þeir einir, sem hjer eiga hlut að máli, heldur mundu líka Austur-Skaftfellingar, Árnesingar og Vestmannaeyingar njóta góðs af, og einnig Rangæingar, og mundi því áætlun báts þessa verða gjörð eftir tillögum frá öllum þessum sýslum, eða í samráði við sýslunefndirnar.

Eins og hinni háttv. nefnd er kunnugt, hafa Skaftfellingar í hyggju að láta allstóran bát, nálega 50 smálesta, er þeir hafa af eigin ramleik komið sjer upp, ganga með ströndum fram, svo að ekki þurfi að hafa allan flutning á skotspónum, eins og áður hefir verið. En úthald slíks báts verður nú miklu dýrara en áður var. Og þar sem styrkbeiðnin líka miðast að nokkuru við upphæð þá, sem þegar er veitt til þessara ferða í gildandi fjárlögum, hefir fjárveitinganefnd gefið henni meðmæli sín.