08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

30. mál, lán til flóabáta

Matthías Ólafsson:

Háttv. þm. Barð. (H. K.) bar undir mig till. sína á þgskj. 96 áður en hún fór í prentsmiðjuna. Hún snertir kjördæmi okkar beggja, og er jeg honum fullkomlega sammála og tel till. sanngjarna. Við erum vel kunnugir, hversu til hagar á Vestfjörðum, og okkur er fullljóst, að hinar fyrirhuguðu ráðstafanir samgöngumálanefndarinnar geta ekki nægt, að því er Vestfirði snertir. Það er hárrjett hjá háttv. þm. (H. K.) að vörur þær, er millilandaskipin eiga að flytja til Vestfjarða, munu verða lagðar upp á Ísafirði. Þá neyðast menn á öðrum hinum mörgu fjörðum og höfnum Vestfjarða að sækja vörurnar þangað, og væri hart, ef þessir menn yrðu að bera allan þann mikla aukakostnað, er af því mundi leiða. Því er ekki nema vorkunn, þótt farið sje fram á, að landssjóður veiti nokkurn styrk til þess flutningatækis, er til þess þyrfti að flytja vörurnar hafna á milli.

Við verðum að halda till. þessari fast fram, með því að við erum flestum kunnugri öllum aðstæðum á þessum slóðum. Vona jeg að háttv. þm. sjái, að á þessu getur orðið full nauðsyn, og því sje sjálfsagt að gjöra ráð fyrir henni.