08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

30. mál, lán til flóabáta

Sveinn Ólafsson:

Hjer liggja fyrir till. um fjárveitingar til flóabáta á Austfjörðum og Húnaflóa. Um þær hefir fjárveitinganefndin þegar tekið afstöðu. En ósjeð er afstaða hennar, ef teknar væru upp till. um fjárveitingar til báta á fleiri stöðum. En að þessar fjárveitingar eru teknar upp, stafar af því, að þessir landshlutar voru vanræktir á síðasta þingi, en fyrir hinum sjeð. Er það og rjett, að þeir nú hafa fyrirheit um frekari styrk en 1915. Undirstaðan er áður fengin hvað Vestfirði og Norðurland snertir, og ferðir þar komnar á þann rekspöl, að hægt ætti að vera að halda uppi viðunanlegum samgöngum með þeim styrk, sem veittur var 1915.

Þess er og að geta, það er tekur til Austfirðingafjórðungs, að þar eru fleiri hafnir og meiri flutningaþörf en á flestum öðrum svæðum hjer á landi, af því að verstaðir eru þar svo margir og ströndin löng og vogskorin.

En ef taka ætti upp óskir manna um styrk til annara flóabáta, þá er hætt við, að þetta mál yrði ekki útkljáð í tæka tíð, ef svo fer, sem líkur eru á, að þingi verði slitið um næstu helgi.

Af þessum ástæðum tel jeg rjettast að samþykkja að eins tillöguna Sjálfa í þetta sinn, en ekki það, sem knýtt hefir verið aftan í hana.

Af sömu ástæðum get jeg ekki heldur felt mig við það, að málið sje tekið út af dagskrá.