09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

41. mál, skaðabætur til farþeganna á Flóru

Framsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg hefi litlu við að bæta nefndarálitið, enda er nú sulturinn orðin keyri á oss, til þess að flýta málinu.

Jeg get undirstrikað enn meir flest það, sem í nefndarálitinu stendur. Margt af farþegunum á Flóru var fátækt verkafólk, sem ætlaði að leita sjer atvinnu yfir sumartímann. Mistu sumir alveg atvinnuna, en aðrir töpuðu miklu af besta vinnutímanum. Má því geta því nærri, að margt af fólki þessu hlýtur að eiga erfitt uppdráttar, þar sem það hefir treyst upp á sumarkaupið til lífsviðurhalds í vetur.

Það má nú reyndar ef til vill segja, að okkur komi ekki við, að bæta tjón þetta, af því að vjer sjeum ekki valdir að því. En eins og í nefndarálitinu stendur, greiðir landssjóður fje þetta að eins til bráðabirgða, til þess að hjálpa fólkinu, meðan verið er að ná fjenu frá þeim, sem skaðabótaskyldan hvílir á.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál.