10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

41. mál, skaðabætur til farþeganna á Flóru

Einar Jónsson:

Jeg þakka háttv. framsm. (M. P.) hvað hann tók hóglega athugasemdum mínum, þrátt fyrir það þótt skoðanir mínar í máli þessu hafi komið og komi enn í bág við skoðanir hans. Hann skilur vitanlega ekki, að þetta geti orðið til fordæmis. Hann á þó ekki víst enn þá, að Bretar borgi neinar skaðabætur. Er þá annað líklegra, ef till. verður samþ., en að velvinnandi menn leiti hjálpar til landssjóðs oftar, þegar atvinnutjón kemur fyrir?

Þá vildi jeg gjöra þá fyrirspurn enn þá, hvort fara skal eftir hæsta síldarvinnukaupi eða meðalkaupi við útborgun skaðabótanna. Getur það skift allmiklu máli.

Það var ekki nema sanngjarnt, að finna að því, að jeg hefi ekki komið með brtt. En eins og jeg tók áður fram, þá sá jeg við 1. umr., að málið hafði svo mikið fylgi, að jeg hjelt það vera þýðingarlaust fyrir mig.