11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Sveinn Ólafsson:

Við erum þrír, sem höfum leyft okkur að koma með brtt. við mál þetta, auðvitað í flaustri, eins og alt annað nú, og ef til vill er hún ekki nægilega yfirveguð.

Það sem okkur gekk til var það, að við gátum ekki fallist á, að það væri rjettlátt að veita þessari stofnun ýms forrjettindi, án þess að kvaðir nokkurar fylgdu, eða án þess að landssjóður njóti tekna af.

Nú eru þær tekjur litlar eftir ákvæðum laganna frá 1915, ekki nema 2% af seðlaupphæð þeirri, er bankinn gefur út. Eigi nú sú seðlaupphæð að fara fram úr 2½ miljón, þá verður þetta allnotadrjúgt fyrir stofnunina, þar sem hún sjálf tekur 6% í rentu; aftur á móti virðist okkur landssjóður afskiftur að fá ekki nema 2%. Ef slíku er fram farið, græðir stofnunin 4%. Í öðrum löndum er mjer kunnugt um það, að bankar verða að greiða hærri prósentur í ríkissjóð af seðlaútgáfu sinni.

Nú er það vilji okkar flutningsmanna brtt. þessarar, að bankinn greiði í landssjóð 4% af seðluútgáfu þeirri, er fer fram úr 2½ miljón. Mundi það auka tekjur landssjóðs allmikið og samt sem áður verða hagur fyrir bankann að seðlaútgáfu þessari.