10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Magnús Guðmundsson:

Það er viðaukatillaga (132), sem jeg vildi segja fáein orð um. Það er í rauninni brtt. við tillögu nefndarinnar.

Í viðaukatillögu þessari er þrír liðir.

Fyrsti liðurinn er sá, að einhleypir menn fái ekki nema 8/5 af því, sem áætlað er til dýrtíðaruppbótar. Það þótti okkur flutningsmönnum þessarar tillögu algjörlega rjettmætt.

Einhleypan mann köllum við hvern þann, er ekki hefir fyrir neinum að sjá, og mun það vera sá skilningur, sem venjulega er lagður í orðið.

Því hefir verið slegið hjer fram, að einhleypur maður lifi eins kostnaðarsömu lífi og þeir, sem giftir eru. Má vel vera, að finna megi dæmi þess. En ekki mun það alment, og þar sem hjer er verið að setja reglur, sem gilda skulu alment, þá má ekki fara eftir undantekningunum, heldur því, sem alment er.

Þá er annar liðurinn sá, að þeir, sem hafa 600 króna tekjur, auk embættislauna, skuli missa 2/5 af dýrtíðaruppbótinni. Þetta virðist okkur vera í samræmi við andann í tillögu nefndarinnar. Því það er vitaskuld sama, hvort tekjurnar koma úr landssjóði eða annarsstaðar að. Peningarnir verða jafn þungir í pyngjunni, hvort sem er. Og ef sanngjarnt er, að prósentur þær, sem uppbótin er miðuð við, fari minkandi eftir því, sem laun eru hærri, þá er þetta líka sanngjarnt.

Enda virðisi það rjettmætt, að landssjóður borgi þeim starfsmönnum sínum minna, er hafa tekjur annarsstaðar að, því gjöra má ráð fyrir, að þeir eyði því minni tíma í þjónustu sína í landssjóðsþarfir.

Þriðji liður tillögunnar er sá, að þeir, sem hafa 1.500 kr. í tekjur, auk embættislauna, fái enga dýrtíðaruppbót. Munu þeir menn flestir ekki vera landssjóðshjú nema að litlu leyti. En sje svo, að þeir hafi mikið embætti, þá munu launin svo há, að þeir geti, að viðlögðum þessum 1.500 kr., komist af, án dýrtíðaruppbótar.

Vona jeg, að hin háttvirta nefnd sjái, að hjer er að eins framhald af hennar eigin tillögu. Okkur þótti það of einhliða í tillögu hennar, að líta að eins á launin, en ekki aðrar tekjur. Annars virðist nefndin sjálf einnig hafa bundið sig við ástæður manna, þar sem hún hefir sett hjá þá, sem hafa 4.500 kr. laun og hærri.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) tók til dæmis mann, sem hann sagðist þekkja, sem hefði verið í 30 ár í stjórnarráðinu. Þann mann þekki jeg ekki, og kemur þetta mjer líka dálítið undarlega fyrir sjónir, þar sem ekki eru nema 12—13 ár síðan stjórnarráðið varð til. Get jeg því ekki skilið dæmi þetta.

Aðallega vildi jeg með orðum þessum sýna hinni háttvirtu nefnd, að það er einmitt hennar eigið „princip“, sem haldið er fram í viðaukatillögu okkar, það, að taka tillit til allra tekna, hvort sem þær koma úr landssjóði eða ekki.

Vona jeg því, að hún hafi ekkert á móti því, að tillagan nái fram að ganga, þar sem hún einmitt er í sama anda og tillaga háttvirtrar nefndar, og þó sparar landssjóði allmikið fje, sjálfsagt 50 —60 þús, kr.