10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Framsm. (Gísli Sveinsson):

Þótt fleiri háttv. flutnm. þessarar nýframkomnu tillögu taki ef til vill til máls, ætla jeg þó þegar að segja nokkur orð.

Fyrst vildi jeg geta þess, viðvíkjandi athugasemd þeirri, er háttv. þm. Dala. (B. J.) kom með, um skilning á 44. gr. þingskapanna, að mín skoðun er sú, að ekki komi til mála að leggja þann skilning í hana, að embættismenn, þeir er á þingi sitja, verði útilokaðir frá því að greiða atkvæði í þessu máli.

Í greininni stendur svo, að enginn þingmaður megi greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín. En þar sem hjer er um að ræða launauppbót til heilla stjetta, þá sje jeg ekki, að það geti heyrt undir ákvæði þetta, sem á við sjerstaka fjárveitingu til einhvers einstaks manns. Enda mundi svo fara, ef sá skilningur væri lagður í greinina, að þeir mundu fáir verða, sem atkvæðisrjett hefðu í máli þessu, eða launa málinu, þar sem annarhvor maður á þingi er hreppstjóri, póstafgreiðslumaður eða embættismaður að einhverju leyti.

Þeir mættu þá ekki greiða atkvæði og yrði það því allálitlegur meiri hluti þingmanna, sem losnaði við að sýna afstöðu sína í þessu máli og væri það illa farið.

Annað hafði jeg ekki að athuga við ræðu háttv. þm. Dala. (B. J.), því að undanskildum nokkrum smáatriðum var hún í samræmi við skoðun mína.

Viðvíkjandi reikningsdæmi1) því, sem háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) tók í ræðu sinni þá álít jeg, að það hafi verið rjett tekið fram í ræðu minni, að verðhækkun á nauðsynjavöru nemi 70%, og verðfall peninga sje »að sama skapi«. En hann orðaði þetta nokkuð öðruvísi, og reiknaði svo eftir því, sem sje með 70% verðfalli líka á peningum, en það var ekki mín meining.

Finst mjer ekki máli skifta, hvernig dæmið er sett fram, ef rjett er á annað borð, það er jeg mælti, sem jeg hygg vera.

1) Í handriti af ræðu háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) sjest að vísu ekki, að hann hafi tilfært þetta dæmi.

G. Sv.

Annars voru orð hans allathugaverð, ef litið er á þau frá rökfræðisjónarmiði.

Sagði hann, að flestir, sem fátækir hefðu verið fyrir stríðið væru enn fátækari nú, en aftur á móti þeir, sem auðugir voru þá, væru nú auðugri. Þetta álít jeg vera rangt. Það getur að minsta kosti að eins gilt þá, er framleiðslu stunda, og ef framleiðslumenn yfirleitt hafa auðgast, þá hafa fátækir menn, sem þó einhverja framleiðslu hafa, einnig „auðgast“, þó í smærri stil sje.

Annars er ekki hægt að skifta mönnum þann veg í flokka, er um þetta mál ræðir. Eina flokkaskiftingin, sem staðist getur, er sú, sem notuð er í tillögu nefndarinnar.

Það eru einmitt fastalaunamennirnir, sem tapað hafa, vegna þess, að vörur hafa stigið í verði, en laun þeirra, er þeir fá greidd í peningum, staðið í stað, eða hlutfallslega minkað. Því er það rangt líka, að hálaunamenn hafi auðgast af stríðinu.

Ef útvegsmenn og aðrir, sem framleiðslu hafa, hafa grætt, þá er það svo, að till. tekur ekkert tillit til þess og greinir ekkert um það. En sje það rjett, að undanskilja þá dýrtíðaruppbótinni, þá er þar með sagt óbeinum orðum, að þeir hafi grætt. En nú hefi jeg að minsta kosti ekki hitt neinn þann búandmann, er játað hafi, að hann hafi grætt á stríðstímanum. Og sje svo, þá er það út í hött að halda því fram, að svifta beri þá menn uppbótinni, sem stoð hafa haft af búi eða annari framleiðslu.

Viðaukatill, sem hjer liggur nú fyrir, fer fram á að þeir, sem einhleypir eru, missi 2/5 af uppbótinni. Setjum nú svo, að einhleypir sje þeir kallaðir, sem eiga fyrir engum að sjá. En vafasamt þykir mjer, að þeir sje margir af launamönnum landssjóðs, sem svo er ástatt um. Líklega eru þeir sárfáir, og þótt nú svo færi, að tveir eða þrír, eða lítið fleiri fyndust, þá mundu það vera ungir menn og lágt launaðir. Og hverju munaði það, þótt þeir væri teknir með? Held jeg helst, að ekki borgi sig, að fara út í slíka smámuni, úr því menn eru sammála um, að veita beri ein hverja uppbót eða hjálpi á annað borð.

Líka vil jeg spyrja, hvaða rjettlæti er þá í því samkvæmt till. þessari, að veita þeim manni uppbót, sem giftur er og á engin börn, jafnháa og þeim, sem á mörg börn, því svo mundi fara, ef báðir hefðu jafnhá laun?

Þetta get jeg ekki betur sjeð en sje áframhaldandi ranglæti, og því engin umbót á starfi nefndarinnar, heldur til stórspillis.

Enn hljóðar viðaukatill. um það, að þeir, sem hafa tekjuauka, er nemi 600 krónum, fái ekki fulla uppbót. Alveg ómögulegt verður, hygg jeg, að meta þetta rjett, og skýrslur um það verða þýðingarlitlar. Ef það er rjett, að bændur t. d. hafi ekki grætt fyrir stríðið, þá gjöri jeg mjer ekki mikla von um, að þeir hafi nú mikið að frádregnum kostnaði. Gjöri jeg ráð fyrir, að þeir komist af, og fullvíst mun vera, að landbúnaðarmenn hafa ekki, hvorki fyrir nje eftir að stríðið hófst, grætt það, er tali taki.

Ef litið er á þetta rjettlæti, sem menn eru að tala um, þá er það alls ekki neitt, eða þá niður á við. Setjum nú svo, að maður, sem hefir talsvert starf á hendi og laun úr landsjóði, sem nema 500 kr., leiti sjer annarar atvinnu með, er hann hefir 600 kr. upp úr, þá vilja tillögumenn færa dýrtíðaruppbótina niður hjá honum. Hvaða rjettlæti er í þessu ? Og hverju mundi það muna fjárhagslega?

Þá kem jeg að þeim, er hafa 1.500 kr. í tekjur, auk landssjóðstekna. Tillögumenn vilja, að þeir fái enga dýrtíðaruppbót. Segjum svo, að þessi sami maður með 500 kr. laun úr landssjóði fyrir góðan starfa og vel ræktan, fái laun fyrir önnur störf annarstaðar frá 1.500 kr, þá fær hann enga uppbót. Hann er með öðrum orðum ver settur en maður með 4.500 kr. launum, þ. e. hálaunamaður. Hver er meiningin ? Hvaða rjettlæti er í þessu? Alls ekkert. Þetta er verra en takmörkunin í lögunum frá 1915, sem nefndin vildi þó ekki fallast á. Þar stendur svo í 4. gr., ef jeg mætti, með leyfi hæstv. forseta, lesa það upp:

„Nú hefir maður á hendi embætti eða sýslan í sambandi við önnur störf, er tekjur gefa, svo sem bókmentastarfsemi, málaflutning, lækningar, kenslu, búðarstörf o. s. frv., eða hann nýtur styrks úr opinberum eða einkasjóðum eða öðru slíku, og fær hann eigi dýrtíðaruppbót, nema tekjur hans samanlagðar verði eigi hærri en svo, að dýrtíðaruppbót fylgi þeim samkvæmt lögum þessum“.

Hjer er þó farinn millivegur, eins og menn sjá. Og hjer er höfð sama aðferð, sem vjer nefndarmenn höfum haft að öðru leyti; tekjurnar reiknaðar og lagðar þar við aukatekjurnar, og er það í áttina. En hitt, að útiloka þá algjörlega frá dýrtíðaruppbót, er margfalt ranglæti, úr því verið er að veita uppbót, og miklu verra en þetta ákvæði laganna, er nefndin eigi aðhyllist.

Þá kem jeg að síðasta liðnum i till., að allir, sem dýrtíðaruppbót fá, skuli gefa stjórninni skýrslu um tekjur sínar. Hjer á þá, undir eiðstilboð má segja, að pressa menn til að gefa skýrslu um hvern eyri, er þeim kann að áskotnast, og við það á að miða, hvort þeir eigi að fá dýrtíðaruppbót, sem sjálft þingið telur þó sjálfsagða, þar sem þessir starfsmenn fái nú ekki full laun fyrir starfa sinn.

Ef þetta verður samþykt, er þá ekki nærri komið því, að þingið geti varla kinnroðalaust látið frá sjer fara tillögu um dýrtíðaruppbót embættis- og sýslunarmanna landsins? Þetta ákvæði er algjörlega ósæmilegt og óviðeigandi af Alþingi, að koma fram með, og þar sem öll rök vanta til þess, að það að öðru leyti verði framkvæmt.

Jeg tel frágangssök fyrir háttv. deild, að samþykkja þessa till., og jeg mælist til, að menn hugsi sig vel um, áður en þeir greiða henni atkvæði. En þótt nú , eitthvað kunni að sparast á þessum undanþágum, nokkrar krónur, og þótt eitthvað sparist við það, að einn eða tveir menn eru einhleypir, og að einn eða tveir menn hafi aukatekjur, og fái því ekki fulla uppbót af kaupi einu. Borgar sig þá slíkur eltingaleikur? Og munu kjósendur færa okkur þakkir fyrir? Jeg held ekki. Jeg vil alvarlega fyrir mína hönd og meiri hluta nefndarinnar mælast til þess, að háttv. deild samþykki ekki viðaukatill.

Eiginlega verður þessi viðauka- eða innskotstill. eigi skilin öðru vísi en svo, sem dýrtíðaruppbót þessi sje nokkurskonar fátækrastyrkur eða þurfalingshjálp, en jeg vil mótmæla því, að svo beri að líta á þetta verk þingsins.

Jeg get ímyndað mjer, að þeir góðir menn sje til, er eigi sjái sjer fært, að taka við slíkri uppbót, og vildu alls eigi fara að gefa upp hvera einasta eyri, sem þeir hefðu snapað saman, til þess að lifa af, svo að þeir gæti fengið dálitla dýrtíðaruppbót.

Ýmislegt var víst, sem háttv. þingmenn höfðu tekið fram, sem fer í líka átt og tillagan ; þarf því eigi að svara því frekar en jeg hefi gjört hjer.

Það eru að eins nokkur atriði í ræðu háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), meðnefndarmanns míns í fjárveitinganefndinni, sem jeg vildi drepa á. Honum þótti margt óþarft í tillögu okkar, og bjóst jeg því við, að hann fjellist á brtt. þessa, sem hjer hefir verið gjörð að umtalsefni. (Sigurður Sigurðsson: Af neyð). Jeg held, að háttv. þm. ætti ekki að láta neyða sig til þess, og jeg veit, að í ýmsum atriðum er hann ósamþykkur flutningsmönnum. (Sigurður Sigurðsson: Alveg rjett). Og ef hann samþykkir þau atriði, er það honum til lítillar virðingar. Hann taldi, að hjer væri of langt og of hátt farið í tillögu fjárveitinganefndar, en nefndin fór þó í rauninni miðlunarveg. En sá mælikvarði, sem hann hefir borið fram í nefndinni, kemur engu meira rjettlæti á; öðru nær. Hann er að eins frábrugðinn okkar í því, að hann veitir minni uppbót. Og þess ber að geta, þegar litið er alment á þetta, þá er þessi uppbót, sem nefndin leggur til, að eins fyrir eitt ár. Ef nú einhverir væru, sem væru ekki samþykkir till. nefndarinnar, þá er sjálfsagt, að næsta þing taki þau atriði til nýrrar meðferðar, um leið og það gjörir ákvarðanir um, hvernig dýrtíðaruppbót skuli farið í framtíðinni, meðan þetta ástand ríkir. Og þótt einhver einn maður finnist, sem ekki er þurfalingur, en fær þó uppbót, þá mætti leiðrjetta það á næsta þingi, svo að háttv. þm. (S. S.) ætti að geta verið rólegur.

Það, sem háttv. sami þm. (S. S.) talaði um ómagamenn og einhleypa, þá hefi jeg áður svarað því í öðru sambandi, og þarf því ekki að fara frekar út í það.

Hann var óánægður yfir því, að allir opinberir starfsmenn væru hjer teknir með. Jeg get eigi sjeð hvernig hann vill verja þá skoðun sína. Mjer finst það engan veginn taka því, að undanskilja þá, sem annars kynnu að komast af, en hafa lágar tekjur úr landssjóði, því það munar áreiðanlega svo litlu fjárhagslega., þegar borið er saman við alla dýrtíðaruppbótina. Hann taldi þeirra á meðal póstafgreiðslumenn; það mundu meðal þeirra, hjelt hann, finnast slíkir stórbokkar, að þeim þætti hneisa að taka við dýrtíðaruppbót. Jeg hygg það ekki vera, ef þetta á ekki að vera fátækrastyrkur. Annars man jeg ekki eftir, að þessi sami háttv. þm. og búnaðarfjelagsráðanautur (S. S.) hafi gjört veður út af því í nefndinni, að ýmsar fjelagsstofnanir, svo sem Búnaðarfjelag Íslands, sem njóta styrks úr landssjóði, voru teknar með. Jeg held, að hann hafi þagað þá, og ekki hefir hann heldur vítt það hjer í þinginu. Jeg tel heldur enga meiningu í, að sleppa þeim, og sjálfsagt að taka slíka menn með, því að best er að halda reglunni alla leið, og ekki setur það landssjóð á hausinn, þótt þeir sje teknir með. (Bjarni Jónsson: Og taka skylduglega skáldin með líka). Það er alt öðru máli að gegna um þau. Skáldastyrkur er styrkur í fjárlögum fyrir ákveðin verk eða einstök, en ekki laun fyrir fastan starfa fyrir landið. Skáldastarfið er þar talið aukastarf. Svo ber einnig að gæta þess, að nefndin hefir ekki vísað því brott um tíma og eilífð, heldur skotið málum þeim til meðferðar næsta fjárlagaþings.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) vildi spyrja, hver borgaði brúsann. Hann hefir líklega ætlað að spyrja: Borgar landssjóður hann, eða má ske Árnessýsla? (Sigurður Sigurðsson: Skaftafellssýsla líka). Já, alt landið borgar þetta. Þjóðfjelagið borgar verkamönnum sínum, og til fundar við Skaftfellinga mun jeg óhræddur fara á sínum tíma með þetta mál. Annars hefir þetta mál legið fyrir kjósendum landsins, svo þeim kemur það ekki á óvart. Það eru sem sje lög síðasta þings um dýrtíðaruppbótina, og í mínu kjördæmi hafði enginn neitt að athuga við það, þótt embættismenn landsins fengi sómasamleg laun. (Sigurður Sigurðsson: Jeg er ekki að spyrja kjósendur, hvað jeg eigi að segja). En voru þá kjósendur þingmannsins að spyrja um nokkuð? (Sigurður Sigurðsson: Nei). Nei, þessi háttv. þm. (S. S.) hefir þá enga sjerstaka vitneskju fram yfir aðra, hvort þeim líkar betur eða ver.

Svo taldi sami háttv. þm. (S. S.), að þingmenn væru hjer að skamta sjálfum sjer, og taldi það hneyksli, en hann var þó einmitt í nefndinni, að skamta sjálfum sjer, svo jeg læt hann og samvisku hans einráð um það. En því mótmæli jeg, að þingmenn sje hjer að skamta sjálfum sjer, því þeir eru hjer sjálfstæðir fulltrúar allrar þjóðarinnar, og er skylt, að taka afstöðu til mála, hvort heldur þau snerta hag þeirra eða ekki, hvort þeim er til óhagnaðar eða ekki, og verður svo að vera, og ætti háttv. þm. (S. S.) að fara nær um það. Enda ættu þingmenn ekki mikið erindi hingað á Alþingi, ef þeir gætu skotið sjer undan öllum þeim málum, er koma nærri þeim sjálfum, eða einhverjum sem þeir þekkja; því öll landsmál koma öllum við, og snerta alla landsins þegna, á einn eða annan hátt.

Þá taldi hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), að verðhækkunartollurinn frá síðasta þingi væri ekki ætlaður til þessarra ráðstafana. Jeg átti að vísu ekki sæti á síðasta þingi, og get því ekkert sagt um það, hvað þm. hafi ætlað, nema eftir áheyrn. Og það var ljóst, að þessi skattur var lagður á, til þess að standast óhjákvæmilegan kostnað og útgjöld, vegna ófriðarástandsins. Og nú eru allir sammála um það, að dýrtíðaruppbót á launum starfsmanna er nauðsynleg, einmitt vegna ófriðarástandsins, og er það því rjett skilið, enda þótt ekki sje beint tekið fram af neinum, að verja beri einhverju af þessu fje til óhjákvæmilegrar dýrtíðaruppbótar handa þeim. Svo er fjarri því, að tollurinn gangi allur til þessa, ekki einu sinni helmingur.

Áður hafa verið borgaðar í uppbót tugir þúsunda, og gjört er ráð fyrir, að þessi uppbót nemi, ef til vill, yfir 200 þús. krónur, og er þá mikið eftir til annarra ráðstafana. En svo hafa hv. þm., og það þm. úr fjárveitinganefndinni, ekki látið sjer nægja með þetta, heldur komið fram með frv. um nýjan toll, einkar hentugan að jeg álít, á útfluttri síld, og mun það nema yfir miljón króna tekjum, svo jeg sje ekki betur en þingið gangi sómasamlega frá þessum málum. Það er líka rjett, að þingið á að gjöra fleira en bæta upp starfsmönnum landsins. Þetta þing gjörir líka fleira, og það er langt frá, að það geti ásakað sig fyrir fyrirhyggjuleysi.

Jeg man svo ekki eftir, að fleira hafi komið fram hjá hv. þingmönnum, sem sjerstaklega þarf að athuga. Að vísu þóttist 1. þm. Reykv. (J. B.) vera andstæður nefndinni, en fjelst að hinu leytinu á, að krafan um dýrtíðaruppbót væri rjettmæt og sanngjörn. Hann lagði mest út af samanburði á kjörum verkamanna og starfsmanna landsins, og skal jeg ekki blanda mjer í það, og á einhleypum og fjölskyldumönnum, en því hefi jeg svarað áður.

En geta má þess að eins, að ekki er hægt að jafna allskostar saman verkalýðnum og embættismönnum landsins. Og víst er, að kaup verkamanna hefir hækkað stórum og það vegna stríðsins, en kaup verkamanna landsins ekkert hækkað, svo að það er enginn órjettur gjörður verkamönnum, þótt kaup opinberra starfsmanna sje eitthvað lagfært. Jeg tel sjálfsagt, að viða þurfi kaup að hækka.

Svo held jeg, að af því, sem fram hefir komið, þurfi jeg ekki að svara fleiru.