10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Magnús Pjetursson:

Jeg get ekki með öllu orða bundist út af till. á þgskj. 132. Því miður mun það verða til lítils, sem jeg segi, því að hjer í hv. deild virðast vera samtök um, að taka ekki rökum, En sennilega munu menn, hjer sem oftar, hafa skiftar skoðanir um rökin. Mjer virðist þessi till. fljóthugsuð, enda er það ekki að undra, því að allir vita, hve fljót hún var að skapast. Jeg held að tillagan hefði orðið öðruvísi úr garði gjörð, ef hv. flutning menn hefðu varið meiri tíma til hennar. Jeg býst við, að tilgangur hennar sje bæði að auka rjettlæti og spara. Það hefir þegar verið mikið rætt um rjettlætishliðina. Mjer virðist augljóst, að hafi ranglæti komið fram hjá nefndinni, þá sje ekki úr því bætt með þessari till. Athugaverða tel jeg öðru fremur 2. málsgrein, að þeir, sem hafa 1.500 kr. aukatekjur og þar yfir, fái ekki uppbót. Eitt finst mjer undarlegt, og það er þetta, að sjálfum flutnm. ber ekki saman um, hvort hjer sje átt við „brúttó“ eða „nettó“ tekjur. Jeg gekk út frá því, að hjer væri átt við hreinan ágóða, en svo vildi einn háttv. þingmaður skilja hjer „brúttó“-tekjur. En á því er mikill munur. Ákvæði till. um 600 kr. mun eiga að vera auk kostnaður, og er þá lítil samkvæmni í því, að hjer er átt við „nettó“-tekjur á öðrum staðnum, en „brúttó“-tekjur á hinum. En sje hjer átt við 1.500 kr. „nettó“, gjöri jeg ráð fyrir, að sparnaðurinn fyrir þetta ákvæði verði ekki gríðarmikill. Býst jeg við, að fáir hafi 1.500 kr. í hreinar aukatekjur. En aftur gæti þetta ákvæði komið mjög ranglátlega niður. Jeg vil taka dæmi. Póstafgreiðslumaður hefir 1.200 kr. í árslaun, og ekkert annað starf. En aftur á móti á hann eign, er gefur af sjer 1.500 kr. á ári. Af því að hann á þessa eign fær hann enga uppbót, þótt hann þann veg hafi ekki nema 2.700 kr. tekjur á ári, en þeir, sem hafa 4.500 kr. föst laun, fá uppbót. Þetta er ranglátt.

Mjer þóttu það nokkuð hörð orð hjá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) að málið mundi fara í strand ef till. fjelli. Getur verið að svo sje í garðinn búið. En mjer finst þetta hart gagnvart hv. Ed., og væri auk þess hið mesta ranglæti gagnvart þeim mörgu, er eiga rjettlætiskröfu til þingsins um þessa uppbót. Jeg vildi skjóta því til hæstv. forseta, hvort ekki væri hægt að bera till. upp í tvennu lagi. Jeg hefi heyrt, að hv. fiutningsmenn sjálfir sje ekki fullsannfærðir um ágæti þessarar málsgreinar. Jeg hefði getað felt mig við, að þeir hefðu miðað við, að launin, ásamt öðrum tekjum, næðu hámarkinu, 4.500 kr.; það væri í betra samræmi við nefndina. Jeg held fyrir mitt leyti, að það væri líklegt til samkomulags, ef þessi málsgrein væri strikuð út, því að þótt meiri hlutinn ráði, tel jeg það ekki lítils virði, að menn geti verið nokkurn veginn sammála í svo stóru máli.