10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla mjer ekki að tefja tíma þessa þegjandi þings með langri ræðu, en að eins drepa á nokkrar athugasemdir.

Það hefir komið fram í ræðu háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.), að stjórnarráðið hafi skilið orðin „einhleypur maður“ á alveg sjerskilinn hátt. En jeg hefi nú fengið að vita af betri heimildum en háttv. þingmaður er, að svo er ekki.

Þá setti hæstv. forseti illu heilli ofan í við mig, fyrir að tala um tillögu, sem búið var að taka aftur. Nú er sama ófreskjan hjer komin afturgengin, að eins klædd eitthvað veglegri spjörum en fyrra sinnið. Eini munurinn er sá, að í þessa nýju tillögu vantar ákvæðið um sveitastjórnir, ákvæðið um hvort skuli flytja embættismenn landsins á hinn nýja hrepp eða ekki. Það var ljótt að þessari fyrirmyndar tillögu skyldi vera kipt burt, því að nú má segja sem kerlingin: „Þá hefði jeg getað saumað, og þú getað saumað, og öll börnin okkar saumað“. Hún sagði það við karlinn, þegar hann hafði týnt nálinni, sem hann hafði fengið fyrir kúna sína.

Um uppbót einhleypra manna er það segja að ef af henni verður dregið þá kemur sá afdráttur mest niður á fátækum og munaðarlausum ekkjum, sem njóta eftirlauna, eða þá örvasa gamalmennum, sem eru orðnir uppgefnir af erfiðleikum lífsins. Jæja, það kemur þá vel niður.

Annað er það í ræðu háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.), sem jeg vil minnast á og mótmæla, og það er að honum sýnist rjett, að fara með aukatekjur manna sem væru þær allar úr landssjóði, og það svo ramlega, að ef þeir hafa 1.500 kr. utan landssjóðsstarfsins, þá má ekki bæta þeim það neitt upp.

Tökum dæmi af póstafgreiðslumanni, sem hefir 300 kr. í laun, en hefir svo snapað sjer saman 1.500 kr. á annan hátt, þá á hann ekkert að fá til uppbótar. Eða kaupmann, sem hefir búðarholu, sem gefur honum 1.500 kr. utan landssjóðsstarfans, — hann á enga uppbót að fá.

Allir heilskygnir menn sjá, hvað þetta er ranglátt. Það er rjett sem háttv. þm. Stranda. (M. P.) tók fram, að þetta væri að fara með fje landsmanna, sem væri það landssjóðs eign.

Háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.) kvartaði undan því, að jeg hefði móðgað sig með því að spyrja hann, hvort hann ætlaði að fylgja fram þeirri tillögu, sem hann var á móti í nefndinni. En háttv. þm. má ekki misskilja þetta svona. Það var alls ekki sagt í móðgunarskyni, heldur var það miklu fremur traustsyfirlýsing til hans. Jeg bjóst einmitt við því, að hann, sem fylgt hafði fram þurfalingsstefnunni og barist fyrir henni, mundi að lokum greiða atkvæði með því, að listamenn og vísinda fengi uppbót, þar sem þeir hafi þess áreiðanlega mikla þörf. En nú sje jeg að hv. þm. (J. J.) hefir ekki átt þessa traustsyfirlýsingu skilið og tek jeg hana því aftur, og álít háttv. þm. reikulan íhugsunum, eins og þá, sem vilja þjóta tindilfættir heim frá öllum málum hálfköruðum, hlaupa heim í hjerað sitt, líklega til að sækja hugsanir sínar, sem þeir hafa gleymt heima.

Háttv. þm. (J. J.) talaði líka um að spara bæri fje, og eyða ekki of miklu í embættismenn landsins. Jeg get játað, að það væri arðvænlegra fyrir landssjóð, að leggja skatta á embættismenn landsins og safna því í sparisjóð og forðast að eyða úr þeim sjóði, og þegja í hel eða drepa niður öll mál, sem kostnað hafa í för með sjer, hversu mikil þjóðþrifaráð, sem þau kunna að vera, eins og sumir núverandi þingmenn virðast vilja.

Það er annars næsta einkennilegt, að þetta smærsta mál þingsins skuli taka lang mestan tíma; því þetta mál er ekki annað en smámál. í löndunum í kring um oss hefir þetta gengið alveg þegjandi og hljóðalaust, að ríkissjóðir bættu embættismönnum ríkjanna upp erfiðleika þá, sem af ófriðnum leiða. Enda dytti engum vinnuveitanda í hug, annað en bæta kjör vinnulýðs síns á svo erfiðum tímum, og er það þá ekki fráleitt, að ríkissjóður skuli eiga að vera lakasti vinnuveitandinn í ríkinu? Sem sagt, þá hefir þessi launauppbót komist alveg hljóðalaust á í löndunum kringum oss, en hjer heima gjöra menn ekki annað en berja barlómsbumbuna og auglýsa hve fátækir vjer sjeum, og veikja þann veg lánstraust vort út á við, að eins til að fá nokkrar krónur í landssjóð, í stað þess að leyfa svona þörfu máli fram að ganga.

Á sama tíma og þetta þing, sem er að springa af óþolinmæði eftir að losna burt, eyðir löngum tíma í vitlausar tillögur, breytingartillögur og því um líkt, þá vanrækir það að hugsa nokkuð um mál, sem borið er fram og verða mætti þjóðinni að liði en þinginu til sóma.

Jeg hefi lýst yfir þessari skoðun minni, — ekki til þess að reyna að hafa frekari áhrif í þessu smámáli, heldur af því að jeg vil fylgja rjettum málstað.

Jeg vil að síðustu lýsa yfir því, að jeg tel mjer móðgun í ef jeg er bendlaður við þær skoðanir, sem háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.) hefir komið fram með í þessu máli, og jeg tel þinginu óvirðing gjörða, að slíkar skoðanir og tillögur skuli hafa komið fram á því, hvort sem tillögurnar verða samþyktar eða ekki.