10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Einar Jónsson:

Mjer þykir vænt um þau ummæli háttv. framsm. (G. Sv.), að eigi væri þörf fleiri ræðna um þetta mál. Það er áreiðanlega rjett. Flestir eða allir háttv. þm. munu hafa myndað sjer afstöðu til málsins.

Það sem gjörði það að verkum, að jeg kvaddi mjer hljóðs, er það að mjer þykir það harla kynlegt, að landsstjórnin skuli vera að ýta undir embættismenn um það, að fara fram á launabætur. Frsm. (G. Sv.) sagði að svo hefði verið, og jeg hefi heyrt það sjálfur víðar að. En þótt sjálfsagt sje, að embættismenn fái uppbót á launum sínum, þá er það óhæfilegt, að landstjórnin sje að ýta undir þá til að fara fram á uppbótakröfur, en nú mun hún hafa símað til embættismanna út um alt land, og óskað að þeir bæðu um 70% launauppbót. (Bjarni Jónsson: Er það vítavert?). Já, hún á að greiða út lögboðin laun, frekar ekki. (Einar Arnórsson: Var það fyrverandi stjórn?).

Já, hún var að ýta undir embættismennina, en ætlaði eftirkomandi stjórn að borga.

Jeg tel það sanngjarnt að greiða embættismönnum einhverja dálitla dýrtíðaruppbót, en jeg álít, að uppbótin megi ekki vera úr hófi fram. (Bjarni Jónsson: Og ekki með peningum). Jú — með peningum, en ekki landaurum vestan úr Dalasýslu. (Bjarni Jónsson: Eru þeir betri á Rangárvöllum?). Jeg er ekki viss um, nema þeir sje meiri landauramenn Rangvellingar en þeir góðu Dalamenn.

Mjer finst hv. framsm. (G. Sv)heldur hljedrægur í málinu, og það er fyr en í dag, sem mjer finst heldur anda ómaklega svalt til okkar sveitamanna, hjer í Rvík. Mjer finst eins og Reykvíkingar líti oft og einatt svo á, sem þeir eigi landssjóðinn, en oss sveitamönnum beri að eins að borga brúsann. Þetta finst mjer oft hafa komið hjer fram síðan jeg kom fyrst á þing 1909, og þessi hugsun er með öllu óhæf og óverjandi.

Jeg vil veita embættismönnum hóflega sanngjarna uppbót, og það tel jeg að þeir fái, ef brtt. nær fram að ganga; hún uppfyllir alla sanngirni. (Þórarinn Jónsson: Og er með fyrirmyndarbragði). En ef brtt. verður feld þá lýsi jeg því hjer með yfir, að jeg greiði atkv. mitt móti frv.

Það hefir verið sumartíð til lands og sjávar. En hugsið ykkur nú, góðir hálsar, að það kæmi harðindavetur og fjárfellir um land alt, svo margir bændur yrðu öreigar. Hvernig ætli hljóðið væri þá? Ætli landssjórnin símaði þá um land alt, um að þeir færu fram á, að landssjóður greiddi þeim tapið? Haldið þið að það yrði ekki bið á því?