23.12.1916
Neðri deild: 5. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

9. mál, landssjóðsverslunin

Flutnm. (Matthías Ólafsson):

Undir eins og landsstjórnin hóf að reka verslun hjer, tók að brydda á óánægju meðal almennings, út af því, að vörurnar væru seldar hærra verði út um landið en hjer í Reykjavík; mönnum þótti engin sanngirni í því, að vara, sem keypt er fyrir almanna fje, væri hjer ódýrari en annarsstaðar. Þessi óánægja hefir vaxið, sjerstaklega eftir þingið 1915, því að nefndin, sem þá fjallaði um þetta mál, lagði til, að verðið væri alstaðar jafnt, en tillögur hennar voru virtar vettugi.

Þetta er ástæðan fyrir því, að jeg hefi komið fram með tillöguna. Jeg hefi á ferðum mínum um landið orðið var við það, hve óánægjan er almenn, og talið mjer skylt að flytja málið, enda er jeg algjörlega á því, að öll þjóðin eigi kröfu til jafns vöruverðs.

Mjer hefir heyrst á sumum, sem þeim þætti tillaga mín ekki vel skiljanleg. En meiningin er sú, að landssjóður greiði ekki flutningskostnað, þegar um stuttan veg er að ræða, t. d. flutning hjeðan og upp á Kjalarnes eða Akranes.

Jeg sje, að fram er komin brtt. á þgskj. 18 við mína tillögu, en mjer finst hún ekki að öllu leyti bæta úr þeim galla, sem mönnum kann að þykja vera á minni tillögu. Þess vegna vil jeg leyfa mjer að leggja það til, að umræðunni sje frestað og málinu vísað til nefndar þeirrar, er skipuð er til að athuga bretsku samningana o. fl.