23.12.1916
Neðri deild: 5. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

9. mál, landssjóðsverslunin

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg hefi flutt brtt. á þgskj. 18 við till. hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), af því að mjer virtist orðalagið á till. hans óljóst. Meiningin er að sjálfsögðu sú sama hjá okkur báðum, sem sje, að landssjóður greiði ekki flutningskostnað, þegar um stutta vegalengd er að ræða og kaupendur sækja vöruna sjálfir; en þetta virðist mjer ekki koma fram í tillögu hans. Það getur ekki náð nokkurri átt, að landssjóður t. d. greiði ferðakostnað fyrir Kjalnesinga eða Akurnesinga, sem sækja vörur hingað, enda hefir sú ekki verið meining háttv. flutnm. (M. Ó.), því að meining okkar beggja er söm, eins og háttv. flutnm. hefir tekið fram, en jeg held, að tillaga mín sje ákveðnari og fyrirbyggi allan misskilning. Hvað það það atriði snertir í tillögu hv. flutnm. (M. Ó.), að ákvæði till. um að vörurnar seljist alstaðar með sama verði á landinu, nái ekki til þeirra vara, er kunni að verða skipað upp á höfnum landsins, utan Reykjavíkur, þá tel jeg sjálfsagt, að það ákvæði nái eins til þeirra. Vörur, sem látnar yrðu t. d. á land á Seyðisfirði, Akureyri eða Ísafirði, ætti að sjálfsögðu að selja með sama verði og vörur, sem skipað yrði upp í Reykjavík, eða hvar sem væri annars staðar á landinu.