08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

32. mál, skipun bankastjórnar

Flutnm. (Matthías Ólafsson):

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með þessa tillögu ásamt fleirum. Og jeg býst satt að segja ekki við miklum umræðum um þetta mál, því að svo sjálfsagt finst mjer það, að jeg hygg að flestir hljóti að vera sömu á skoðun um það.

Það er alkunna að stórar verslanir setja næstum því æfinlega verslunarstjórum sínum þau skilyrði, að þeir taki ekki þátt í opinberum málum. Hjer er um þá stofnun að ræða, sem meira er um vert en nokkra aðra stofnun í landinu, og væri því ekki síður nauðsyn á, að setja framkvæmdarstjórum Landsbankans þessi skilyrði en almennum verslunarstjórum.

Það má líka benda á það, að hlutdeild í opinberum málum dregur alt af hugann mikið frá því starfi, sem þessir menn ættu að gefa sig óskifta við. Og auk þess fylgja því líka oftast nær erjur og stundum fullur fjandskapur, að standa framarlega í einhverjum stjórnmálaflokki. Það er líka alkunnugt, að það eru einkum flokksmenn verslunarstjórans, sem skifta við verslun hans, en hinir versla fremur við aðra.

Jeg skal ekkert um það fullyrða, hvort þetta hefir komið fram við Landsbankann, en jeg þori ekki heldur að neita því, en hitt er víst, að orðasveimur hefir talsverður verið um það, að Landsbankastjórarnir drægi taum þeirra manna, sem styddu þá í opinberum málum. Hvort sem þessi orðasveimur er sannur eða ekki, þá er hann einn ærinn til þess, að ástæða sje til að samþykkja þessa tillögu.

Jeg gæti búist við þeim mótmælum, að þetta skerti persónulegt frelsi manna, en þar til er því að svara, að oft er nauðsyn á, að takmarka persónulegt frelsi, en einnig má geta þess, að engum er skipað að sækja um þessa stöðu. En þrátt fyrir það, þótt þetta skilyrði sje settK þá hygg jeg, að margir væru fúsir til að fórna sjer fyrir bankastjórastöðuna eina, og væri þá vel farið, því bankastjórastörfin eru orðin svo umfangsmikil að ekki veitir af, að þeir sem þeim gegna gefi sig við þeim með lífi og sál. Vitanlega dettur okkur flm. tillögunnar ekki í hug annað en bankastjórarnir hafi fullkomið hugsunarfrelsi og atkvæðisrjett.

Það stendur nú svo á við Landsbankann, að nú er að verða breyting á bankastjórninni og býst jeg við að veitt verði annað embættið, sem losnaði nú fyrir skemstu, er annar bankastjóranna varð ráðherra. Það væri því vel til fallið, að stjórnin hefði þetta í hug við veitingu þessa embættis, en auðvitað er ekki hægt að setja Birni Sigurðssyni nein skilyrði, því að hann var ráðinn með öðrum skilyrðum.

Jeg ætla svo ekki að orðlengja þetta meir. Ef jeg heyri andmæli, mun jeg reyna að svara þeim, en satt að segja, býst jeg ekki við að heyra þau, því eflaust er hægt að fá nóga góða menn, þótt þetta skilyrði yrði sett.

Jeg gleymdi áðan að geta þess, að verði komið með þau andmæli, að nauðsyn sje að hafa bankastjórann á þingi til að gæta hagsmuna bankans, þá er því til að svara, að hjer á engan sjerstakan mann að þurfa til að gæta hagsmuna bankans; um það á alt þingið að vera samhent. Þeim andmælum er því nú þegar svarað fyrir fram.