12.01.1917
Neðri deild: 23. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Jón Jónsson:

Jeg kem hjer með nýja brtt. við frv. um heimild fyrir landsstjórnina að veita Íslandsbanka leyfi til að auka seðlaútgáfu sína. Það var af mínum völdum, að tillaga svipaðs efnis kom hjer fram í deildinni í gær og var borin undir atkv. Nú hefir það verið upplýst í málinu síðan, að ástæða er til að koma með nýja breytingartillögu, og er því sú tillaga til orðin, sem jeg kem hjer með, og fanst mjer það standa mjer næst að bera þessa tillögu fram. En hún er á þá leið, að í staðinn fyrir 2% í 2. tölulið í 1. gr. laga frá 9. sept. 1915 komi 3%, þar sem hin fyrri till. hafði þar 4%.

Þótt þessi brtt. sje ekki löng, verð jeg þó að koma með hana skrifaða, því hún er enn ekki komin úr prentsmiðjunni.

Annars get jeg tekið það fram í sem fæstum orðum, að jeg vil leggja á móti þessu frv. Jeg verð að játa það, að jeg hefi enn ekki sannfærst svo af ástæðum þeim, sem færðar hafa verið fyrir nauðsyn þess, að jeg geti gefið því atkvæði mitt. Og eftir mínu viti hefir stjórnin enn ekki fært nægar ástæður fyrir nauðsyn seðlaaukningarinnnar enn á ný. Jeg veit ekki betur en að í fyrra hafi verið veitt leyfi til að gefa út eina miljón króna í seðlum. Vonandi er, að sú upphæð nægi í bráðina. Og jeg get ekki vænst þess, að nú verði aftur farið að veita nýtt leyfi, rjett á eftir hinu, og ekki get jeg láð háttv. þingmönnum, þótt þeir sje dálítið ragir að samþykkja svona fyrirvaralaust jafn gengdarlausa tillögu og þessi er, einkum þar sem ekki er unt að hafa neitt eftirlit með fjármunum bankans; því þótt stjórn bankans lofi öllu fögru, þá er ekki von að oss þingmönnum sje slíkt nóg. Það sýndist ekki óviðeigandi, að banki þessi hefði einhverjar skyldur gegn landinu, en hvernig sem þeim skyldum líður, þá er það víst, að bankinn er nú orðinn svo voldugur, að landið er fremur háð honum en hann landinu, og það er eðlilegt, að svo sje, að minsta kosti á meðan engar tilraunir eru gjörðar til að kippa í lag löggjöfinni gagnvart bankanum. því vil jeg fara varlega í að auka seðlaútgáfurjett bankans, þótt sagt sje, að það sje alveg nauðsynlegt og óhjákvæmilegt vegna ófriðarins, sem nú geisar. Því þótt svo kunni að vera, og því neita jeg ekki, að þörfin sje meiri á fje vegna ófriðarins, þá er áhættan líka svo miklu meiri vegna ófriðarins, að bankinn kunni að fara á höfuðið. Og þótt það sje fjarri mínu skapi, að vera að hræða þá, sem peninga eiga þar inni, eða að gefa á nokkurn hátt í skyn, að þetta verði, þá get jeg ekki komist hjá því að játa, að það sje hugsanlegt. Jeg veit raunar, að það er ákveðið í lögum, að bankinn skuli eiga eignir í öðru en gulli, fyrir nokkru af þeirri seðlafúlgu, sem er ógulltrygð, en um þessar eignir veit maður annars ekkert frekara, og enn síður vitum vjer, hversu fljótur bankinn yrði að breyta þeim eignum í peninga, ef þörf bæri brátt að, eða hvort hann gæti með þeim forðað frá vandræðum.

Af þessum ástæðum er brýn þörf á? að þingið hafi eftirlit með þessari stofnun, sem geymir svo mikið fje, sem landsmenn eiga. Og einn liður í því eftirliti verður að vera sá, að bankinn hafi ekki of mikið af seðlum úti, af því, að því meira, sem úti er af seðlum, því verr er bankinn trygður fyrir hruni.

Um prósenturnar hefi jeg heyrt, að bankinn ætti ekki að standa sig við að borga þær svo háar, sem farið er fram á í brtt., sem jeg tók upp í gær, af þeim seðlum sem gulltrygðir eru. Þykir þeim, sem ekki geta gengið að þeirri tillögu, víst bankinn ekki græða nóg á seðlaútgáfunni með því móti. En jeg fyrir mitt leyti sje ekki að nauðsynlegt sje, að bankinn græði neitt á þessari nýju seðlaaukning sinni, ef gengið er út frá, að þessi aukning seðlanna eigi að vera til að bæta úr viðskiftaþörf, — til að lána mönnum fje og styrkja þörf fyrirtæki með lánum. En hins vegar finst mjer sjálfsagt að landssjóður hafi eitthvað upp úr þessu.

Því er það, að miðlunartillaga þessi hefir verið sett saman, og þótti rjett, að gera þetta til samkomulags, ef báðir partar mættu vel við una. En þótt jeg verði að játa, að jeg sje engin tormerki á, að þessi tillaga ætti fram að ganga, þá er jeg þess engan veginn fullvís, því svo margir þingmenn virðast halda föðurlegum hlífiskildi yfir þessari stofnun. En þar sem þó hin tillagan fjekk svo mörg atkv. í gær, hefi jeg von um, að þessi komist fram, því þótt margir þm. vilji hag Íslandsbanka, vona jeg þó að hinir sje fleiri sem hæst setja heill landsins, hag þess og velgengni.