08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

32. mál, skipun bankastjórnar

Bjarni Jónsson:

Það er nú búið að taka fram ýmislegt af því, sem jeg ætlaði að segja, en þó skal jeg leyfa mjer að árjetta það með nokkrum orðum.

Háttv. flutnm. (M. Ó) sagði, að hjer stæði líkt á og með verslanir, sem leyfðu ekki verslunarstjórum sínum að taka þátt i opinberum málum. En hjer er um tvent ólíkt að ræða. Verslanir getur skort viðskiftamenn, en jeg hefi aldrei heyrt þess getið, að bankann skorti þá; hefi aftur heyrt, að bankann hafi skort peninga handa viðskiftamönnum sínum. Annars sýnist það liggja bak við þessa till., að flutnm. álíta, að bankastjórar Landsbankans hafi verið hlutdrægir. Jeg get borið um það, að þótt jeg hafi oft verið ósammála bankastjórninni í opinberum málum, þá hefir húu aldrei látið mig gjalda þess í viðskiftum mínum við bankann.

Jeg hygg því rjett, að leyfilegt sje, að setja manninn aftur í þá stöðu, sem hann hefir úr farið. Tel jeg það líka að fara aftan að manni, ef gömlum þingmanni, sem komist hefir í bankastjórastöðu, væri meinað að bjóða sig fram á þing.

Hitt var líka tekið fram, að bankinn ætti að hafa svo mikið fylgi þingsins, að ekki þyrfti með þingsetu bankastjóra. Nú hefir það komið fyrir, ekki alls fyrir löngu, að útlendum banka var fenginn í hendur seðlaútgáfurjettur, en innlendur banki sviftur honum, og lifum við enn undir afleiðingum þess, og má það heita óhönduglega farið.

Annars var það rjett tekið fram hjá einum háttv. þm., að mótsögn er í því, að meina bankastjóra annars bankans þingsetu, og þar með þegnrjett, en láta bankastjóra hins, sem í rauninni er erlendur hlutafjelagsbanki, hafa fullan rjett. Ef bankastjórar reyndust hlutdrægir, mundi varla fara svo, að báðir hölluðust á sömu sveif.

En þetta eru ekki aðalatriðin. Jeg vildi að eins benda á þetta, til þess að sýna fram á, að ástæðurnar fyrir till. eru hvorki sterkar nje veigamiklar.

Hitt er aðalatriðið, sem hæstv. forsætisráðherra (J. M.) tók fram, að það er ekki sæmilegt, að þingið sjálft skori á stjórnina að brjóta stjórnarskrána, en til þess mundi leiða ef till. væri samþykt, og stjórnin hagaði sjer eftir henni.

Þetta var til umr. á þingi fyrir fáum árum í umr. um stjórnarskrárbreytinguna síðustu, að meina bankastjórum þingsetu, eins og dómurum, en gekk þá ekki fram, svo ekki er hægt að segja, að það sje ýkjagamall þingvilji.

Háttv. flutnm. (M. Ó.) sagði, að þetta væri ekki skerðing á frjálsræði mannsins, þar sem um samningsatriði eitt væri að ræða. Jeg áleit þó, að fátækt eða atvinnuleysi gæti neitt mann til að sækja um stöðuna, svo hann um leið neyddist til að beygja sig undir þau skilyrði, er sviftu hann leyfi til þingsetu. Svo þetta er að mínu áliti bein skerðing á þegnfrelsi. Annars mundu það vera sársvangir menn, er sæktu um stöðu, sem sviftir borgararjettindum. Þar sem líka bankarnir eru tveir, ætti hið sama yfir báða að ganga, en slíkt verður ekki án laga.

Álít jeg því, að hvorki háttv. deild nje stjórnin geti tekið á móti áskorun þessari.