08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

32. mál, skipun bankastjórnar

Bjarni Jónsson:

Það er til lítils að þrátta lengi um þetta mál. Skal jeg þó nefna nokkur atriði. Flutningsmenn till. leggja áherslu á, að þetta mundi koma í veg fyrir hlutdrægni. En þótt þetta yrði gjört að skilyrði fyrir skipun bankastjórans, er þá þar með útilokað, að hann yrði hlutdrægur af stjórnmálaástæðum ? Mundi ekki hættulegt, að stjórnin fengi slíkt samningavopn í hendur á bankastjóraefnið? Hún mundi þá, ef til vill, fremur taka leiðitamasta manninn en hinn duglegasta. Gæti þá ekki einmitt bankastjórinn orðið hlutdrægur eltir stjórnmálaskoðunum? Væri það víst, að till. hans yrðu óhlutdrægar, þótt hann mætti ekki nota fullan og óskertan stjórnmálarjett sinn? Jeg held, að tryggingin sje engin, þótt svo væri um búið. Hygg einmitt, að þá muni hægra að vera hlutdrægur í skúmaskotum, ef menn þurfa ekki að bera opinbera ábyrgð. Vona jeg, að menn skilji, að tryggingin er engin. Háttv. þm. V. Sk. (G. Sv.) gat sjer þess til, að jeg hefði ekki lesið rjett. Það er misskilningur hans. Þegar maður er tekinn úr einhverri stöðu og gjörður að ráðherra, er í hans stað settur einhver maður á eigin ábyrgð. Ef svo einhver slík ákvæði væru sett um stöðuna, meðan þessi maður væri ráðherra, kemst hann undir þessi ákvæði, er hann tekur við stöðunni aftur, því að þá verður að skipa hann á ný. Svo var að minsta kosti, þá er Kristján Jónsson tók aftur við háyfir dómaraembættinu. Þessi till. sýnist því helst vera lykkja til að smeygja yfir þann mann, sem áður var bankastjóri, en er nú nýorðinn ráðh., ef hann tæki við bankastjórastöðunni aftur.

Það kom ljóst fram í ræðu hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að hjer er farið fram á stjórnarskrárbrot. Hann játaði, að ekki væri unt að koma með þetta í lagaformi, af því að það væri stjórnarskrárbrot. Með þessarri þingsál.till. er skorað á stjórnina að brjóta stjórnarskrána. Hún á að bera ábyrgðina. Hjer er því sýnilega verið að flytja áskorun til hinnar nýskipuðu stjórnar, sem hlyti að leiða til þess, að hún segði af sjer. Stjórnin getur ekki orðið við þessarri áskorun. Það er ekki leyfilegt, að stjórnin taki af mönnum rjett í samningi með broti á stjórnarskránni, jafnvel þótt samningar sje frjálsir. Auk þess ber þess að gæta, að þegar samningurinn hefir í sjer fólgna þessa afsölun persónulegs rjettar, mun stjórnin ekki eiga völ á góðum mönnum. Því að góðir menn vilja ekki semja af sjer hinn besta rjett. Það er því ekki rjett, að stjórnin megi útiloka þá góðu menn og hæfu, er ekki vilja ganga að slíkum skilyrðum. Jeg tel víst, að enginn vænn maður vilji ganga að slíkum samningum.

Háttv. flutnm. (M. Ó.) sagði, að oft vœri nauðsynlegt að kreppa að persónufrelsi manna. Það getur verið; en þá verður að spyrja: Hve nær er þess þörf? Auðvitað er það nauðsynlegt t. d. með hegningarlögunum. Stjórnarskráin skerðir og persónufrelsi, t. d. dómenda, og það tel jeg ilt, þótt jeg hins vegar játi, að það sje malum necessarium.

Hvaða ástæðu, sem háttv. flutnm. (M. Ó.) kann að finna fyrir máli sínu, verður hann að viðhafa aðra aðferð en samþykkja eina þingsályktun til stjórnarinnar. Það er ekki rjetta leiðin.

Svo er það þessi hætta, ef maður á annarri stjórnmálaskoðun vildi fá peningalán. Er ekki um þessa sömu hættu að ræða, t. d. hjá þeim dómurum, sem einnig hafa umboðsstörf? Hví ætti þá ekki einnig að gjöra þann samning við sýslumenn, að þeir megi ekki bjóða sig fram til þings? Eða tökum til dæmis kennara. Hugsum oss, að kennarar mentaskólans feldu hrönnum saman fátækra manna syni við próf, af stjórnmálaástæðum. Þetta þyrfti að ná til fleiri sýslunar- og embættismanna en bankastjóra. Hinir háttv. flutnm. ættu að bíða til næsta þings, og semja þá lög, eða gjöra stjórnarskrárbreytingu, um að taka kjörgengi af svo og svo mörgum stjettum.

Hjer er eigi unt að gjöra samanburð. Ef t. d. einn einasti maður missir æruna fyrir hlutdrægan dóm, gjörir dómarinn með því meiri skaða, en bankastjóri gæti gjört á 10 öldum. Þess vegna er þessi frelsisskerðing nauðsynlegt böl (malum necessarium), hvað dómarana snertir. Um landritarann er alt öðru máli að gegna. Þar er að ræða um samning milli tveggja manna, áður en þeir fengu embætti, að sá þeirra, sem yrði ráðherra, skyldi gjöra hinn að landritara með þessum kostum. Þetta, hvernig landritarinn varð til, gæti bent á afleiðingarnar af samþykt þessarrar till. Bankastjórinn gæti þá orðið skipaður bak við tjöldin.