08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

32. mál, skipun bankastjórnar

Flutnm. (Matthías Ólafsson); Það eru orðnar meiri umræðurnar um svona litla tillögu, en andmælin hafa þó ekki sannfært mig um það, að ekki sje heimilt að gjöra samninga samkv. því, sem tillagan fer fram á.

Jeg gleymdi einu atriði áðan, er jeg svaraði háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.). Hann taldi það nauðsyn, að bankastjóri Landsbankans sæti á þingi. En vjer höfum enga tryggingu fyrir því, að hann gjöri það, nema því að eins, að hann sje skyldaður til þess; og það væri sjálfsagt betra, því að þá yrði hann ekki riðinn við kosningastapp og hlutdrægni, sem af því leiðir. En þar sem hv. sami þingm. sagði, að tillagan mundi fram komin vegna núverandi ráðherra Björns Kristjánssonar, þá er svo langt frá því, að jeg hafi ætlað mjer að særa hann á nokkurn hátt. Mjer er vel til þess manns persónulega, og við erum góðkunningjar frá gamalli tíð. Nei, það er vegna bankans sjálfs, því að enginn getur neitað því, að sá orðrómur hefir legið á, að bankastjórarnir væru hlutdrægir, bæði í tíð Tryggva Gunnarssonar og Björns Kristjánssonar.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að bankastjórarnir hefðu verið greiðugir á lán við sig. Það getur vel verið, og þess munu líka dæmi, að bankastjórnin hefir lánað andstæðingum sínum stórfje, og ekki komið heppilega niður.

Jeg veit ekki, hvaðan háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) kemur vitneskja um það, hvernig tilhögun eigi að vera við bankann, en býst við, að þetta sje flugufregn. En þó að sönn væri, þá get jeg ekki talið þá ráðstöfun heppilega að setja menn um langan tíma í slíka stöðu. Það er bægt að gjöra í sýslumannsembætti, en ekki í bankastjórn, nema stuttan tíma, 1—2 mánuði.

Annars getur mikið oltið á því, hvort .stjórnin treystist ekki til þess að framfylgja tillögunni, af því að hún telur hana andstæða stjórnarskránni eða anda hennar. Það er fjarri mjer að álíta þetta mál svo vaxið, að það geti verið til þess að velta stjórninni, ef hún telur sig ekki geta farið eftir tillögunni, af því að hún komi of nærri stjórnarskránni, sem jeg held nú raunar ekki. Þá mundi jeg heldur taka tillöguna aftur, heldur en að koma stjórninni í nokkur vandræði.