08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

32. mál, skipun bankastjórnar

Forsætisráðh. (Jón Magnússon):

Jeg býst ekki við, að um skipun bankastjóra verði að ræða til næsta þings. Eins og kunnugt er, er veiting fyrir öðru embættinu; í því situr Björn Sigurðsson, sem nú er utanlands, en væntanlegur heim innan skams tíma. Um hitt embættið er það að segja, að fráfarandi bankastjóri, sem nú er orðinn ráðherra, hefir óskað, að því yrði haldið opnu til næsta þings, svo að það yrði ekki veitt fyr en á næsta þingi, eða að því loknu. Auðvitað getur annarhvor eða báðir bankastjórarnir fallið frá, en samt þykir mjer líklegt, að ráðuneytið mundi ekki ganga lengra en að setja mann eða menn í embættin.

Hinni spurningunni, hvort ráðuneytið telji tillöguna andstæða stjórnarskránni, get jeg ekki svarað, því að það hefir enn ekki borið sig saman um það efni. Jeg fyrir mitt leyti tel hana ganga mjög nærri ákvæðum stjórnarskrárinnar. Einhver háttv. þm. dró dæmi af landritaranum. Jeg verð að telja það dæmi alls annars eðlis en það, sem hjer er um að ræða Það var samkomulag, að landritarinn legði niður þingmensku, er hann tók við landritaraembættinu, en skoðun mín var og er sú, að hann hefði ekki þurft að láta af embættinu, þótt gefið hefði sig við þingmensku.

Annars er jeg satt að segja, dálítið hissa á því, ef menn í alvöru halda, að stjórnin muni fara frá, þótt þessi tillaga yrði samþykt. Mönnum má þó vera kunnugt um það, að þingsályktunartill. hafa verið samþyktar tugum saman, sem landsstjórnin hefir ekkert gjört við, eða út af. Þessi ósiður, að samþykkja í hugsunarleysi þingsályktunartillögur, sýnist vera orðinn nær því beinn sjúkdómur í háttv. deild. Þess vegna er jeg hissa á því, að þótt önnur deildin í fljótræði samþykki einhverja þingsályktunartillögu, skuli mönnum koma til hugar að hreyfa því, að ráðuneytið fari frá, ef það þykist ekki geta sínt henni. Slíkt er næstum barnalegt.