08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

32. mál, skipun bankastjórnar

Gísli Sveinsson:

Jeg hefi aldrei látið það um mælt, að komið gæti til mála, að stjórnin færi frá fyrir þessar sakir. En spurningin var sú, hvort stjórnin mundi taka tillöguna til greina, ef samþykt yrði, eða virða hana vettugi. Það hefir ekki komið ljóst svar fram við því, hvort svo yrði eða ekki. Hitt tel jeg ekki geta komið til mála, að stjórnin ljeti veltast á þessu; til þess þyrfti eitthvert verulegra mál, eða, þar sem hjer er að eins um áskorun í þingsályktun að ræða, þá yrði stjórnin að dæma eftir á.

Þessar orðræður háttv. þm. Dala. (B. J.) um það, hvort stjórnin muni taka sprett og segja af sjer, ef till. yrði samþykt, held jeg að sje ástæðulausar. Háttv. þm. getur víst verið ókviðinn fyrir því. Annars hefir hann orðið að viðurkenna alt það, sem jeg sagði um þetta mál síðast, svo sem um samkomulag það, sem gjört var við landritara.

Jeg vildi þá næst benda hæstv. forsætisráðherra (J. M.) á það, að hann leggur víst áreiðanlega aðra og víðari merkingu í orðið embættismaður, en lögin gjöra. Hann kvaðst ekki mundu treysta sjer til að hindra það, þótt bankastjóri Landsbankans, sem ráðinn hefði verið með þessum skilyrðum, tæki á móti kosningu til Alþingis.

Við skulum gjöra ráð fyrir, að þetta skilyrði sje sett í skipunarbrjef eða erindisbrjef mannsins. Brot á móti slíkum brjefum getur og hlýtur að valda vítum, jafnt í þessu tilfelli sem öðrum, svo sem frávikning frá sýslan hans.

Jeg get ekki með nokkru móti sjeð, að það geti verið brot á stjórnarskránni, þótt þessi till. yrði samþykt, þar sem hún ber það með sjer, að hún er að eins áskorun um að gjöra frjálst samkomulag. En hitt væri aftur á móti brot, ef það væri sett í einfalt lagaboð, að bankastjórnin mætti aldrei skifta sjer af opinberum málum.

Háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J) talaði um hlutdrægni bankastjórnarinnar í sambandi við þetta mál. Jeg skal ekkert um það dæma, hvorki til nje frá, hvort það hefir komið fyrir. En um hitt, sem hann sló fram, að óhugsandi væri, að bankastjórnin yrði skipuð öðrum mönnum en fjármálamönnum er það að segja, að reynsla fyrri ára mótmælir þeirri fullyrðingu algjörlega. Fæstir af þeim bankastjórum, sem hingað til hafa verið við Landsbankann, hafa verið fjármálamenn eða bankafróðir.

Viðvíkjandi því hvort setja beri í bankastjóraembættin eða ekki, þá álít jeg það vera mjög óheppilegt. Nú er annar bankastjórinn suður í London, og enginn veit, hve lengi hann verður þar, en maður settur í hans stað; og nú er gjört ráð fyrir, að setja mann í hitt embættið. Þetta álít jeg vera mjög óhyggilega ráðið og næstum því óhæfilegt. En úr því ekki verður neinu um þokað í þessu efni, úr því ekki á að skipa neina bankastjórn nú eða fram á næsta þing, þá er mjer fyrir mitt leyti ekki fast í hendi, að till. verði borin undir atkvæði.

Rökstudda dagskráin frá 1. þm. Skagf. (M. G.) var ekki borin undir atkvæði, þar eð forseti lýsti yfir því, að tillagan væri tekin aftur.