12.01.1917
Neðri deild: 23. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Forsætisráðh. (Jón Magnússon):

Ekki tjáir að sakast um orðinn hlut. En ekki get jeg annað en talið það mjög óheppilegt, að samþ. var brtt. sú, er fram kom hjer í hv. deild í gær. Þessi nýja brtt. bætir nú óneitanlega talsvert úr skák, en þó ekki til fulls. Jeg ætla ekki að fara neitt út í málið í heild sinni, eða rekja það út í æsar, enda er hvorki tími nje ástæður til þess nú. Jeg vil að eins leyfa mjer að taka það fram, að jeg tel það óheppilegt, að frv. skyldi ekki vera leyft að ganga í gegnum deildina, eins og það var afgreitt frá Ed.; því eins og margtekið hefir verið fram, þá er hjer ekki um annað að ræða en bráðabirgðaráðstöfun, vegna ófriðarins, tryggingarráðstöfun til þess, að nægilegur gjaldmiðill geti verið til í landinu. Og má í því sambandi láta þess getið, að gjaldmiðilsþörfin vex að sama skapi, sem peningarnir lækka í verði.

Að sinni skal jeg svo ekki orðlengja um þetta frekar.