06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

31. mál, styrkveiting til íslenskrar þýðingar á Goethe

Einar Jónsson:

Það sje mjer fjarri að ætla mjer að andmæla því, að sá maður, sem hjer ræðir um, sje vel fær til þessarar þýðingar. Jeg hefi lesið margar af þýðingum hans, og veit, að hann er einna bestur þýðari og íslenskumaður hjer á landi. En alt um það, get jeg ekki verið sammála hv. flm. þessarar till. Undir hana hafa skrifað 6 þm., þar af 3 nýir, sem jeg fyrirgef þetta, vegna ungæðisháttar og hugsunarleysis þeirra. En hinum 3, sem áður hafa setið þing, get jeg síður fyrirgefið óþarfa þenna.

Jeg tók það fram þegar. Í þingbyrjun, að inn á þetta þing ætti ekkert óþarft mál að koma, sem mætti fresta. Hjer er um eitt slíkt mál að ræða. Jeg get vel ímyndað mjer, að jeg mundi geta greitt atkvæði með þessum styrk á næsta þingi, en jeg vil ekki hrapa að þessu nú, og láta ungæðishátt háttv. þm. N.-Ísf. (S. Th.) ráða. Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) tók það einnig fram, að hjer væri lagt út á býsna hála braut, vegna skilyrða þeirra, sem sett eru í fjárlögunum. Jeg get ekki annað en verið á sama máli, og mun því greiða atkvæði móti tillögunni, þótt jeg kynni að vera hugmyndinni eitthvað hlyntur í sjálfri sjer.