06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

31. mál, styrkveiting til íslenskrar þýðingar á Goethe

Einar Arnórsson:

Jeg stend aðallega upp út af athugasemd hæstv. forsætisráðherra (J. M.), en fyrst hann er ekki viðstaddur í bili, skal jeg snúa mjer að hátt. 2. þm. Rang. (E. J ).

Hann sagði, að vjer værum þrír gamlir þingmenn og þrír nýir, sem stæðum að þessari tillögu; það er rjett, og vjer, sem berum hana fram, teljum oss hana fremur til sóma heldur en hitt; vjer þekkjum manninn, og vitum, að hann er vel fær til verksins, og að það muni verða þjóðinni til sæmdar. Þess vegna bið jeg hvorki vin minn, 2. þm. Rang. (E. J.), nje aðra háttv. þingdeildarmenn afsökunar, þótt nafn mitt standi undir till. Það hlýtur að vera af meinloku, sem hlaupið hefir í koll háttv. þm. (E. J.), að hann furðar sig á þessu. Stuðning þessa mátti og heyra á ræðu hans, því að í henni var enginn botn. Hann sagðist vera hlyntur hugmyndinni, en mundi þó ekki greiða henni atkvæði á þessu þingi. Jeg veit nú ekki, hvaða „feno-men“ þetta þing er, ef ekki má taka ályktun um þetta mál; hjer er engan veginn um nýja fjárveiting að ræða, hjer er að eins farið fram á, að ráðstafa á tiltekinn hátt fje, sem þegar hefir verið veitt. Jeg get frætt menn um það, að engu af þessu fje hefir verið ráðstafað fyrir þetta ár, sem nú er að byrja, og gefin hefir verið út auglýsing um það, að þeir sem vilja fá styrk af þessum lið fjárlaganna, skuli hafa sent umsóknir um hann fyrir 15. janúar þ. á. Og þessi fjárveiting er alls ekki bundin, en af því mun líklega stafa þessi misskilningur háttv. 2. þm. Rang. (E. J). Hann mun hafa haldið, að gömlu styrkirnir hjeldu fortakslaust allir áfram, en svo er ekki; öll fjárveitingin er óbundin enn þá, nema um þá, sem beint eru nefndir í áliti fjárlaganefndar Alþingis 1915 (Sbr. þingskjal 337 í A-deild Alþt. 1915). En þótt þessir menn fái það, sem til var œtlast, er meira en nóg eftir óbundið.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) virtist finna meinbugi á þessari till. vegna athugsemdarinnar í 20. lið 15. gr. fjárlaganna, að því leyti sem þar stendur, að stjórnin „skuli“ haga fjárveitingum sínum „eftir tillögum“ nefndar þeirrar, er þar getur. En bæði samkvæmt umræðum um málið á þingi í fyrra, og samkvæmt eðli málsins, geta orðin „eftir tillögum“ ekki táknað það, að stjórnin væri svínbundin við tillögurnar, hvernig sem þær væri. En jafnvel þótt þetta væri nú svo, að stjórnin teldi sig bundna við tillögur nefndar þessarar, þá er enn á hitt að líta, að nefndin hefir talið sig bundna við meðmæli fjárlaganefndar, og ef hún telur sig bundna við lauslegar tillögur hennar í nefndaráliti, hví ætti hún þá ekki að telja sig bundna við þingsályktunartillögu, sem meiri hluti annarar deildarinnar eða jafnvel báðar deildir Alþingis samþykkja? En þar að auki er það eingöngu „formalismus“ að segja, að þessi alhugasemd fjárlaganna eigi að ganga framar en þingsályktunartill., og auðvitað er það landsstjórnin, sem ber ábyrgð á úthlutun styrksins, og getur því eðlilega ráðið úthlutun hans.

Jeg skal geta þess, að jeg var ekki þessu máli, Faustþýðingu Bjarna Jónssonar, kunnugur í fyrra. Jeg hefi nú lesið það, sem komið er af þýðingu Fausts, og þykir hún ágæt; og á því tel jeg engan efa, að ef þetta brjef prófessors P. Herrmanns, sem liggur hjer frammi, hefði komið í fyrra, þá mundi nefndin hafa hlotið að leggja með því, að Bjarna væri veittur styrkurinn, því að þessi útlendi vísindamaður er alkunnur hjer meðal bókmentamanna, og orð hans mikils metin.

Að endingu skal jeg að eins taka það fram, að hvernig sem litið er á afstöðu nefndarinnar, sem athugasemdin í 20. lið 15. gr. fjárlaganna gjörir ráð fyrir, þá er það þó víst, að algjörlega er meinlaust að samþykkja þessa tillögu. Ef nefndin metur tillöguna að enga og stjórnin telur sig bundna við tillögur nefndarinnar, þá hefir deildin þó gjört það, sem hún taldi rjett, ef það verður ofan á nú, að till. verður samþykt eða eitthvað í líka átt. Svo að hvernig sem á er litið, er skaðlaust að samþykkja tillöguna.