06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

31. mál, styrkveiting til íslenskrar þýðingar á Goethe

Flutnm. (Skúli Thoroddsen):

Jeg skal fyrst snúa mjer að hæstv. forsætisráðherra (J. M.). Jeg þarf ekki að svara honum mörgum orðum, með því að báttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir þar orðið til andsvara.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) lítur svo á, að stjórnin sje bundin við ákvæði fjárlaganna, og tillögur nefndar þeirrar, sem 15. grein fjárlaganna felur að taka til bókmentastyrk. Það má líta svo á. En stjórnin ber þó formlega ábyrgð á á gjörðum sínum, jafnt í þessu máli sem öðrum. En gjöri stjórnin eitthvað það, er baki henni ábyrgð, þá er ákæruvaldið hjá Alþingi, en ef stjórnin fer eftir vilja Alþingis, þá færist ábyrgðin yfir á Alþingi sjálft, svo að ekkert getur því verið í húfi fyrir stjórnina, þótt hún fari eftir tillögunni, verði hún á annað borð samþykt. Að öðru leyti hefir háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) svarað því, er tekur til þessarar hliðar málsins.

Jeg var ekkert hissa á því, að mentamálanefndarmaðurinn, háttv. 2. þm. Rang. (E. J.), skyldi standa upp í þessu máli. Jeg þóttist vita, að hann mundi hafa notað vel tíma sinn í jólafríinu austur á Rangárvöllum, til þess að hugsa um mentamálin.

Sannleikurinn held jeg að sje sá, að háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) sje ekki málinu hlyntur, þótt hann í öðru orðinu segði, að hann væri það. Yfirleitt held jeg ekki, að hann sje hlyntur skáldskap, og jeg hygg það vegna fyrri reynslu minnar á hv. þm., að hann vildi feginn slá niður allar hugsjónir, ef hann gæti haft þær í kviðfylli handa einhverjum ferfætlingnum, en, sem betur fer, yrði þeim líklega sú andlega fæðan jafn strembin og háttv. 2. þm. Rang. (E. J.).

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) taldi þetta mál koma fram á óheppilegum tíma. Jeg sje ekki, á hverju hann byggir þess skoðun sína. Hann sagði, að nú væru þeir tímar, að nauðsynlegt væri að spara alt, sem mögulegt væri. Jeg skal fúslega kannast við það, að rjett er að spara, þótt jeg hins vegar taki það fram, að það má spara um of. En það kemur ekkert þessu máli við. Hjer er ekkert um það að tala, að spara eða eyða. Hjer er einungis um það ræða, að ráðstafa því fje, sem þegar er veitt, og yrði að öðrum kosti útbýtt til einhverra annarra, og jeg skil það tæplega, að háttv. þm. haldi, að þessar krónur yrðu lagðar í einhvern varasjóð til að ávaxtast þar æfinlega, þótt þessi tillaga vor yrði feld.

Það er rjett, sem háttv. sami þm. (M. Ó.) gat sjer til, að vjer flutnm. þessarar till. höfum víst allir lesið Faust á frummálinu, en það er líka einmitt af því, að vjer höfum lesið ritið, að vjer viljum stuðla að því, að sem flestir geti fengið að lesa það.

Annars er jeg hissa á því, að þessi háttv. þm. (M. Ó.) skyldi rísa upp á móti till. Jeg hefi ávalt haft þá skoðun, að hann væri hlyntur skáldskap og listum, og mjer hefir komið hann fyrir sjónir sem aðal-styrktarmaður slíkra styrkja, sem þessi er. Jeg er hálf hræddur um, að hann leggist ekki á móti þessu máli með góðri samvisku, og vel gæti jeg trúað því, að Mefistofeles gamli kæmi í nótt og talaði við hann, og þakkaði honum fyrir vikið.