06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

31. mál, styrkveiting til íslenskrar þýðingar á Goethe

Einar Jónsson:

Jeg fyrirverð mig ekki fyrir það, þó jeg standi nú upp til að endurtaka og árjetta orð mín áðan. En jeg fyrirverð mig aftur á móti fyrir þá menn, sem ekki geta eða ekki vilja skilja það, að jeg er þessu máli mjög hlyntur, þótt jeg hins vegar vilji ekki, að það sje afgreitt á þessu þingi. Það hryggir mig mikið, ef háttv. 2. þm. Árn. (E.A.) hefir skilið við skynsemina og skilninginn um leið og hann afklæddist ráðherratigninni. Jeg endurtek það, að jeg er þessu máli að sjálfsögðu hlyntur.

Hitt get jeg fyrirgefið, þótt það kenni ærins ungæðisháttar í framkomu hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.). Hann vænir mig um það, að jeg sje annars yfir höfuð á móti skáldum. Jeg skal trúa honum fyrir því, að þótt jeg sje svo heppinn að vera ekki skáld (Skúli Thoroddsen: Jeg kann vísu eftir hv. þm.), þá kann jeg í fylsta máta að meta þau, og vil, að þau, sem það eiga skilið, en önnur ekki, fái maklega viðurkenningu fyrir starf sitt.

Að endingu skal jeg leyfa mjer að bera upp í deildinni svohljóðandi dagskrá:

Með því að deildin treystir herra Bjarna Jónssyni til vandaðrar þýðingar á Goethes Faust, telur hún víst, að nefndin, sem gjörir tillögur um úthlutun á fje því, sem hjer rœðir um, leggi til, að honum verði veittur sœmilegur styrkur til þýðingarinnar, án beinna afskifta þingsins, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.

Dagskrá þessa kem jeg með til þess að tryggja, tilhlýðilega, að fje það, sem hjer ræðir um, að veitt verði til þýðingarinnar, og jeg þykist sjá, að deildin er ráðin í að samþ., sje ekki tekið úr landssjóði sjerstaklega og formlaust.