12.01.1917
Neðri deild: 23. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Einar Arnórsson:

Jeg ætlaði ekki að vekja neinar kappræður um þetta mál, en háttv. 1. þm. N. M. (J. J.) hafði þau orð um það, sem knýja mig til að standa upp.

Jeg tek undir það með hæstv. ráðherra (B. K.), að það væri eðlilegast að seðlaútgáfan væri í höndum landsins. En nú stendur svo á, að Íslandsbanki hefir, samkvæmt lögum sínum frá 1902, einkarjett til seðlaútgáfu, og við því verður ekki gjört nú.

Háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.) sagði, að hann væri ekki sannfærður um, að nauðsyn hafi borið til, að veita Íslandsbanka þessa aukningu, því að hann hefði ekki sjeð rök eða heyrt fyrir því. Jeg skil þetta, því að háttv. þingmaðurinn hefir alls ekki kynt sjer málið. Jeg skal benda honum á, að honum hefði verið innan handar að kynna sjer málið með því, að fá skjölin lánuð í stjórnarráðinu, og hefði það verið viðkunnanlegra, að hann hefði gjört það áður en hann fór að fella dóm um nauðsyn seðlaaukningarinnar. Að minsta kosti hefði hann getað kynt sjer álit nefndarinnar í Ed. Það er á þgskj. 60. Og þar stendur þó, að full nauðsyn hafi verið á seðlaaukningunni, og því sama hefir stjórnin öll lýst yfir. Þegar fráfarandi stjórn hafði þetta mál til meðferðar, hafði hún við hönd sjer til ráðuneytis velferðarnefnd þá, sem þingið í fyrra kaus, og var alt, sem gjört var í þessu máli, gjört með ráði hennar.

Það er óhætt að segja það, að flestum mun vera það ljóst, að viðskiftaveltan hefir aukist mikið síðan árið 1914, og að því skapi hefir gjaldmiðilsþörfin aukist mjög mikið, og það var það, sem rjeð því, að þessi bráðabirgðalög voru gefin út.

Jeg skal geta þess, að ef þingið samþykkir lögin, eins og þau voru samþykt hjer í deildinni í gær, þá býst jeg ekki við, að þau komi að neinu gagn, því að bankinn mundi þá ekki nota þessa heimild sína. Meðal annars getur t. d. Landsbankanum verið það hagræði, að Íslandsbanki noti hana, því að Íslandsbanki er þá skyldur til að flytja ókeypis hingað það fje, sem Landsbankinn fær frá Kaupmannahöfn, og borga fyrir Landsbankann fjárhæðir í Kaupmannahöfn, samkvæmt lögum 9. sept. 1915.

Verði nú lögin afgreidd frá þinginu á sama hátt, sem þau voru afgreidd í gær til 3. umræðu hjer í deildinni, þá má telja víst, að Íslandsbanki sæi sjer hag í því að nota fremur danska seðla, en sú ráðstöfun gæti orðið til tjóns fyrir Landsbankann, og ef til vill þar að auki fyrir landsmenn alment.

Við höfum nú, á þessu þingi, stofnað til mikilla ráðstafana, sem munu kosta mikið fje, en þá verðum við líka að sjá um, að bankarnir verði ekki uppiskroppa með peninga. Hitt finst mjer vera sjálfsagt, að bankanum sjeu sett ströng skilyrði fyrir því, hve nær hann skuli innleysa seðlana, til þess að útiloka að bankinn geti spekúlerað með þá. Slík ströng skilyrði hefir fráfarandi stjórn sett honum, eins og frv. sjálft líka sýnir best, og sjá má af málinu, ef hv. þm. vildi kynna sjer það í stjórnarráðinu.