29.12.1916
Neðri deild: 10. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

17. mál, kaup á nauðsynjavörum

Pjetur Ottesen:

Mig furðar á þessum miklu umræðum, sem orðið hafa um það, er virðast má aukaatriði tillögunnar, hvernig varan skuli látin úti. Vjer flutningsmenn tillögunnar lítum svo á, að nauðsyn beri til, að gjörður væru nú þegar ráðstafanir til þess að birgja landið upp með kornvöru og öðrum nauðsynjum. Erfiðleikarnir á öllum flutningum eru miklir, eins og mönnum er kunnugt, og vaxi þeir, sem við má búast, verður landið að vera við því búið. Þessi till. er að eins áskorun til stjórnarinnar að nota heimildarlögin. Vjer höfum dæmi fyrir oss frá öðrum þjóðum; þar hafa stjórnirnar í mjög stórum stíl gjört slíkar öryggisráðstafanir, sem hjer er farið fram á, og kemur það þó ekki til af því, að þær þjóðir eigi óstyrkari kaupmannastjett en vjer, eða að nokkru örðugri aðstöðu, heldur þvert á móti.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) gaf það í skyn, að vjer flutningsmenn hjeldum, að það þyrfti ekki nema orðin tóm til að framkvæma þetta.

Honum skjöplast í þessu, því að vjer vitum það ósköp vel, að örðugleikar allmiklir eru á framkvæmd þessara ráðstafana fyrir landsstjórnina. En að það þurfi að standa á því, að ekki sje hægt að geyma vöruna innanlands, nær ekki nokkurri átt, enda kæmu þá heimildarlögin ekki að liði heldur.

Jeg get ekki fallist á brtt. þá, sem fram hefir komið. Það sem fyrir oss vakti, var það, að úr því landsstjórnin yrði að skerast í leikinn og reka verslun, þá ætti sú verslun að vera sem allra frjálslegust, og að jafnframt ættu menn aðgang að svo ódýrum vörum, sem frekast væri kostur á, án þess þó, að landssjóður selji með skaða sínum.

Það hafa komið fram raddir um það, að útiloka kaupmenn frá því, að ná í vörur þessar. Það var alls ekki meining vor, og jeg get ekki fallist á það. Þeir geta undir mörgum kringumstæðum haft betri tök á því en t. d. hreppsfjelög, að nálgast vörur á afskekta staði, og hafa auk þess betri aðstöðu með geymslu á þeim, og svo vegna atvinnu þeirra, eins og háttv. meðflutningsmaður minn tók fram.

Hitt felst jeg fúslega á, sem hv. þm. Dala. (B.J.) tók fram, að nauðsynlegt er, að stjórnin setji reglur um afhendingu á vörunum. Þær reglur eru nauðsynlegar gagnvart kaupfjelögum og kaupmönnum. Ef til vill eru deildar skoðanir um þörf þessarar ráðstöfunar, og mun það koma fram við atkvgr. Jeg sje ekki, að vjer höfum gjört annað en gott eitt með tillögunni. Hún er til frekara aðhalds fyrir stjórnina, svo að hún láti eigi undir höfuð leggjast, að gjöra ráðstafanir nú þegar í þessa átt.