09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

25. mál, kolarannsókn og kolavinnsla

Bjarni Jónsson:

Jeg stend upp af því að það var jeg, sem flutti þessa till. inn í þingið.

Háttv. nefnd, sem hefir haft þetta mál til meðferðar, hefir ekki tekið þessu máli illa, en mjer finst, að hún hafi heldur lítið gjört, og má ef til vill virða henni það til vorkunar, því það er rjett, að málið var ekki mikið undirbúið, hvorki frá minni hendi nje stjórnarinnar, sem hefði átt að leita sjer einhverra upplýsinga um málið.

Það er rjett, að það mun kosta talsvert fje að framkvæma þessa rannsókn, því að bæði þarf að kaupa bora og eins þarf að fá aðstoð bæði námuverkfræðings, sem fá þarf frá útlöndum og jarðfræðings, sem vjer höfum hjer heima, en þrátt fyrir þetta getur varla heitið, að í stórt sje ráðist. Því vjer verðum að athuga það vel, að það eru líkur til, að þetta geti orðið oss gróðafyrirtæki. Geti þetta orðið til þess, að landið verði ekki kolalaust meðan á stríðinu stendur og aðflutningar til landsins teppast, þá yrði slíkt varla metið til peninga, og þá geta menn ekki sagt, eins og nú er á hvers manns vörum, að þingið gjöri ekki neinar ráðstafanir til þess, að fyrirbyggja skort á kolum.

Jeg get auðvitað engin ráð gefið um það, hvernig ætti að haga rannsókninni, enda eru margir aðrir hjer á landi færari en jeg til þess að gefa slík ráð. En það hygg jeg, að haganlegast yrði að hefja rannsóknina nú þegar til þess, að hægt yrði að taka til starfa við kolavinsluna næsta vor.

Hvað sem annars má segja um líkindin til þess, að slík rannsókn, sem þessi, komi að tilætluðum notum, þá er það víst að ekki má leggjast undir höfuð að framkvæma hana, því að það er svo ríkt í þjóðinni að krefjast þess, að slík rannsókn fari fram.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en vænti þess að stjórnin greiði götu þess eftir mætti.