09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

35. mál, lán til garðræktar

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg er þess fullviss, að till. þessi er borin fram í besta skyni, og getur orðið til góðs, ef vel er með hana farið.

Jeg álít, að hjer sje um talsvert fjárhagsatriði að ræða, og get verið með því, að málinu verði vísað til fjárveitinganefndar, en efast þó um, að það fái nægan undirbúing fyrir því.

Eins og kunnugt er, hefir hjer á landi verið alt of lítið um garðrækt hugsað, og of mikið tómlæti í því máli; hefir Búnaðarfjelag Íslands látið sig það of litlu skifta. Virðist því brýn nauðsyn til, að ýta undir menn til framkvæmda í garðræktinni.

Háttv. flutnm. (B. J.) virtist trúa Einari Helgasyni garðyrkjumanni best til framkvæmda í þessu máli, og mun það rjettlátt, en þó tel jeg það ofvaxið honum einum. Hefir hann ekki nógum mönnum á að skipa og ekki næg sambönd, og á auk þess mjög annríkt sjálfur. Menn þurfa sjálfsagt allalment góðra leiðbeininga í garðræktinni, því mjög margir eru óhæfilega fákunnandi í því, er að garðrækt lýtur. Álít jeg því heppilegra, að Búnaðarfjelagið hefði yfirumsjón og væri það þá ekki heldur útilokað, að málið nyti góðs af Einari Helgasyni, þar sem hann er einmitt í þjónustu fjelagsins. Álít jeg að Búnaðarfjelagið hafi betri sambönd, svo sem Ræktunarfjelag Norðurlands, og hin einstöku búnaðarsambönd.

En er ekki hjer til tryggari leið en lánveitingar? Væri ekki heppilegra að veita verðlaun fyrir góða garðrækt? Þetta er að vísu lauslega athugað hjá mjer og því bara slegið fram. En mjer virðist það framkvæmanlegra. Með því móti mundi þurfa minna fje, og hvað stefnuatriði málsins snertir, þá tel jeg verðlaunaveitingar heppilegri. Það getur verið gott að lána fje til garðræktar, þar sem stjórnin þekkir til, eða getur auðveldlega fengið ábyggilegar upplýsingar um, en slíkt gæti ekki orðið alment, og mundi henni reynast ómögulegt að sinna slíka út um land.