09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

35. mál, lán til garðræktar

Flutnm. (Bjarni Jónsson):

Jeg hefi ekkert á móti því, að málinu verði vísað til fjárveitinganefndar. Það er satt, að einn formgalli er á tillögunni, sá, að tilnefndur er Einar Helgason garðyrkjumaður, án þess að fengið hafi verið samþykki hans.

Sumir hafa sagt, að sennilega mundi tilgangurinn með till. vera góður.

Jeg veit ekki betur en að jeg sje þegar búinn að taka fram, hver tilgangur minn sje með henni, sem sje sá, að fá menn til að rækta matjurtir í íslenskri mold, til þess svo að geta nærst á þeim á eftir. Þetta er minn tilgangur, og geta menn sjálfir dæmt um, hvort hann er góður eða vondur.

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) sagði, að Einar Helgason mundi hafa verri sambönd en Búnaðarfjelagið, en á því get jeg frætt hann að flest þau sambönd, sem fjelagið hefir, hefir hann útvegað. En ef Alþingi vill ekki nefna þann rjetta mann, heldur stofnun þá, sem hann starfar við, þá er mjer það sama.

Þá eru það fjárhagslegu atriðin, sem vaxa mönnum í augum. Jeg álít, að þótt menn færi alment að auka garða sína, þá mundu flestir einkis láns með þurfa til þess. Það yrðu að eins fátæklingarnir, sem þess þyrftu, og þær upphæðir mundu verða svo lágar, að litlu máli skiftu.

Ekki get jeg sjeð, að neinar sjerstakar reglur þurfi fyrir slíkum lánveitingum. Stjórnin hefir sínar reglur eftir að fara í þeim efnum, og tekur tryggingar eftir því, sem við horfir í það og það skiftið.

Hingað til hefir ekki þurft að hvetja stjórnina til að setja hörð skilyrði fyrir lánveitingum. Það væri líka ljótt og ilt afspurnar, að trúa ekki hinni nýju stjórn, sem skipuð er þrem dugandi mönnum, fyrir öðru eins smáræði og þessu.

En hvað sem því líður, þá er jeg ekki móti því, að málinu verði vísað til fjárveitinganefndar að lokinni þessari umræðu.