09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

35. mál, lán til garðræktar

Eins og jeg gat um í byrjun ræðu minnar, er jeg á því að þingsályktunartillagan sje ekki nægileg, heldur hefði hjer átt að gefa út ströng nauðungarlög. En því er öðru vísi varið með þingsályktunartillögu nú en verið hefir. Þingmenn hafa á þessu þingi verið svo sáróánægðir með þessa útlegð sína í Babýlon, að þeir hafa ekki gefið sjer minsta tíma til að koma fram með vilja sinn í frv. formi. Þinginu hefir borist fjöldinn allur af till. til mjög mikilla fjárveitinga. Jeg hefði komið með frv. til þvingunarlaga í máli þessu, ef jeg hefði búist við að tími þingsins entist (Pjetur Jónsson:

Þm. hefir eigi hugsað málið), og ef þessir gömlu skrjóðar, sem hafa aldrei hugsað ærlega hugsun alla sína alkunnu hundstíð, hefðu ekki setið hjer sem þröskuldar í vegi fyrir nytsömum og þjóðþörfum fyrirmælum.

Að svo mæltu óska jeg þess, að málinu verði vísað til 2. umr., þó jeg hins vegar hafi ekkert á móti því að það komist til landbúnaðarnefndar, ef því á þann veg kynni að verða betur borgið.