12.01.1917
Neðri deild: 26. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Gísli Sveinsson:

Eins og háttv. þingm. mun kunnugt, þá er frv. þetta komið frá háttv. Ed., í sama horfinu og það var fyrst afgreitt þaðan. Hjeðan var það afgreitt nokkuð á annan veg. Jeg leyfði mjer þá að óska þess, að hæstv. stjórn ljeti í ljós álit sitt um það, hvað í hófi væri, ef breytingar væru gjörðar við frv., og vil jeg nú endurtaka þá ósk mína til hæstv. stjórnar, að hún láti í ljós skoðun sína á því, hvað það gjörði til, þótt breytt væri 1. gr. frv., þar eð enn er komin brtt. við þá gr., sem fer í sömu áttina og sú, er samþ. var hjer, þegar málið var afgreitt síðast.

Ef nú svo er, að brtt. þessi, sem fer fram á að skatturinn til landssjóðs verði hækkaður úr 2% í 3%, verður til þess, að bankinn hætti við að nota heimildina, þá mun jeg, vegna ófriðarástæðna nú, og að eins vegna þeirra, greiða atkvæði með því, að frv. verði afgreitt óbreytt.

Annars, ef engin yfirlýsing um þetta kemur frá hæstv. stjórn, mun jeg greiða atkv. með brtt.