15.12.1916
Sameinað þing: 1. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

Rannsókn kjörbréfa

Jeg skal þá fyrst nefna þau kjörbrjef, sem engar kærur hafa komið yfir, og kjörbrjefadeildin hefir ekkert haft að athuga við. Það eru kjörbrjef þessara manna:

1. þm. Rang. (E. P.),

2. þm. Rang. (E. j.),

2. þm. Húnv. (G. Ó.),

1. landsk. þm. (H. H.),

2. þm. Reykv. (J. M.),

þm. Vestm. (K. E.),

þm. Stranda. (M. P.),

2. þm. Skagf. (Ó. B.),

þm. S.-Þ. (P. J.),

þm. Borgf. (P. O.),

þm. A.-Sk. (Þorl. J.).

Við kjörbrjef þessara manna hefir nefndin ekkert haft að athuga, og leggur því að sjálfsögðu til, að þau verði öll dæmd gild.

Þá kem jeg að þeim kjörbrjefum, sem kært hefir verið yfir.

Það hefir verið kært yfir kosningunni í Mýrasýslu. Þessi deild hefir samt komist að þeirri niðurstöðu, að taka beri hana gilda, og það af þeirri ástæðu, að það hefir verið föst venja hjer í þinginu, að taka þær kosningar gildar, þar sem misfellurnar eru ekki meiri en svo, að þær gætu engin áhrif hafa haft á kosninguna, þótt öll vafaatkvæðin hefðu fallið á mótstöðumanninn.

Það eru ýms atriði í þessari kæru, sem jeg vildi fara um nokkrum orðum.

Þeir sem kæra, taka það sjerstaklega fram, að tekin hafi verið gild atkvæði, sem greitt höfðu „menn sem heima sátu á kjördegi og ekki höfðu skift um heimili, frá því kjörskrá var samin“.

Jeg tel það ekki ná nokkurri átt, að dæma ógilda kosninguna fyrir þessa sök, því að hvernig gátu menn vitað um það fyrir fram, hvort þeir, sem komu og vildu fá að kjósa, yrðu heima á kjördegi, og ekki heldur víst, að kjósendurnir vissu það fyrirfram, að ekkert það gæti komið fyrir, sem hamlaði ferðum þeirra.

Þá hefir í öðru lagi verið kært yfir því, að frambjóðandinn, Pjetur Þórðarson, skyldi staðfesta fylgibrjef með atkvæðum, sem greidd voru skriflega. Þetta eru ekki kæruefni, því að hann var beinlínis skyldur að gjöra það, þar sem hann var sjálfur hreppstjóri. Að hann staðfesti fylgibrjef manna, sem voru utan hans hrepps, kom til af því, að í Borgarnesi voru hin löglegu yfirvöld, sýslumaður og hreppstjóri, ekki viðstaddir, en mennirnir vildu reyna þetta, að láta hann staðfesta fylgibrjefin, af því að þeim var annars gjört ómögulegt að kjósa.

Þá hefir í þriðja lagi verið kært yfir því, að sýsluskrifarinn í Borgarnesi væri ekki nógu gamall til þess að staðfesta atkvæðabrjef.

Jeg veit ekki til, að til sje nein ákvæði í gildandi lögum, sem heimti vissan aldur til slíkra hluta.

Þá er í fjórða lagi kært yfir því, að þingmaðurinn hafi „að líkindum“ keypt sjer atkvæði.

Þetta atriði finn jeg ástæðu til að nefna nánar, því að það er svo vaxið, ef áburðurinn væri sannur, að þá varðaði hann ærumissi.

Með þessum kærulið fylgir vottorð þriggja manna, og skal jeg með leyfi hæstvirts forseta lesa það upp. Það er svohljóðandi:

„Við undirritaðir vottum hjer með, að við heyrðum Þorstein Bjarnason vinnumann í Galtarholti, segja að kvöldi kosningadagsins, er tilrætt var um kosninguna, að Pjetur Þórðarson, hreppstjóri í Hjörsey, hefði gefið sjer 1 kr., en sjálfur sagðist hann ekki hafa ætlað að taka nema 50 aura, og skildum við það svo, að Pjetur hefði borgað honum þessa krónu fyrir atkvæði hans.

Svignaskarði 20. nóv. 1916.

Guðmundur Daníelsson,

Indriði Ólafsson,

Runólfur Eyjólfsson“.

Um einn af þessum mönnum er það að segja, að mjög efasamt er að hann hafi getað verið viðstaddur þetta umrædda kvöld. En um Þorstein Bjarnason er það að segja, að hann þykir lítið gáfaður maður og ekki ýkja sjálfstæður, ekki síst er hann er undir áhrifum þess frelsanda guðs, sem vjer nefnum Bakkus.

Yfirleitt má segja það um þenna lið kærunnar, að slíkar illkvitniskærur ættu ekki að sjást hjer í þinginu.

Þá voru fleiri kjörbrjef, sem kærur fylgdu. Var þar eitt úr Gullbringu- og Kjósarsýslu. En þar er svo háttað, að framboði eins þingmannsefnis var hafnað af þeirri ástæðu að það kom of seint fram, og er jeg þar á sömu skoðun sem kjörstjórnin, að þar eð framboðið kom fyrst eftir hádegi á laugardag, var það of seint, því að það átti að hafa komið fyrir kl. 12 að nóttu kvöldinu áður, og get jeg vitnað þar til bæjarfógetans á Akureyri, sem gefið hefir út auglýsing um, að framboðum skyldi skila fyrir þann tíma. Hjer er heldur ekki um neinar þær afleiðingar að ræða, er áhrif gætu haft á kosningaúrslitin, þar eð frambjóðandi tekur úrskurð kjörstjórnar gildan og afturkallar framboðið.

Þá eru, í öðru lagi, kærðir formgallar á kosningunni, þar á meðal útbúnaður kjörherbergis. Höfðu í því verið tveir kosningaklefar. Þetta atriði kærunnar er alveg rjett, en sök á hendur kjörstjórn getur það aldrei verið, því að engin áhrif getur tala kjörklefanna haft á úrslit kosninganna. Enda segir kjörstjórnin að slíkt hafi alt af viðgengist síðan lögin um leynilegar kosningar gengu í gildi. Einnig má benda á það, að nærri lá að kœrt yrði hjer í Rvík, sökum þess, að ekki var nema einn kjörklefi í hverju kjörherbergi, svo að ekki komst að nema lítill hluti kjósenda til að kjósa.

Þá er í þriðja lagi kært yfir því, að annað þingmannsefnið hafi gefið út seðla, til leiðbeiningar við kosningarnar, og hafi þeir verið svo líkir þeim rjettu kjörseðlum, að menn hefðu getað kosið á þá. Um þetta má segja nokkuð líkt og fjórða atriðið í Mýrasýslukærunni, að hjer er gjörð tilraun til að ófrægja mannorð annars þingmannsins, því að auðvitað er það glæpur að falsa kosningaseðla. En þetta kæruatriði geta allir sjeð að ekki nær nokkurri átt, því að allir vita að slíkir seðlar, sem þessir. eru gefnir út, bæði af einstökum mönnum og blöðunum við hverjar einustu kosningar, ekki að eins hjer á landi, heldur um allan heim.

Kjörbrjefadeildin hefir því komist að þeirri niðurstöðu, að vísa beri þessari kæru frá, af sömu ástæðu og Mýrasýslukærunni, sem ástæðulausri.

Þá hafði kjörbrjefadeildin einnig til meðferðar kjörbrjef 1. þm. Árn. (S. S.) og fylgdu því kærur allmiklar, en um það er sama að segja og hinar kærurnar, að deildin leggur það til, að það verði einnig tekið gilt.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefir lofað mjer að hafa framsögu í því máli, til þess að ekki komi alt á mitt bak.

Það get jeg sagt um þessa kosningu yfirleitt, að á henni eru miklir gallar, og kjörstjórnirnar hafa misskilið allhrapallega kosningarlögin, en deildin lítur svo á, að þrátt fyrir þá ágalla sje ekki ástæða til að gjöra kosninguna ógilda, en álítur sjálfsagt að átelja kjörstjórnirnar og jafnvel beita sektarákvæðum kosningarlaganna. Yfirleitt vill deildin ekki ónýta kosningar, þar sem kjörstjórnirnar eiga sök á göllunum, en ekki þingmennirnir sjálfir.