15.12.1916
Sameinað þing: 1. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

Rannsókn kjörbréfa

Framsm. 1. kjörbréfadeildar (Bjarni Jónsson):

Rjett var það hjá háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), að ekki voru öll atkv. í kjördeildinni með því, að samþykkja að svo búnu kosninguna í Mýrasýslu, heldur mikill meiri hluti.

Mintist hann á eitt atriði kærunnar, sem sje atkvæðakaupin. — Satt er það að vísu, að illa fer á, að Alþingi gangi á undan í því, að þola ólög, en hitt mundi ekki fegurra til afspurnar, nje afsakanlegra, að það gengi á undan í því, að hlaupa eftir lygaþvaðri og þvættingi. Munu líka allir á einu máli um það, að orð fáráðlings þess, er jeg áður nefndi, sjeu rógur einn, eða kosningafleipur.