15.12.1916
Sameinað þing: 1. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

Rannsókn kjörbréfa

Eggert Pálsson:

Um kjörbrjef þau, sem hjer liggja fyrir, er ekki neitt að ræða. Þau mega teljast að öllu leyti vítalaus, nema kjörbrjef eða kosning 5 þingmanna. Það hafa sem sje komið fram þrjár allharðar kærur út af kosningunum úr Gullbr.-og Kjósarsýslu, Árnessýslu og Mýrasýslu, og enda er þá mestmegnis upptalið, það sem kært hefir verið, nema kosningin í Eyjafjarðarsýslu, sem ekki liggur fyrir að þessu sinni.

Eftir að hafa athugað kæruna úr Gullbr.- og Kjósarsýslu, þykir mjer sanngjarnt að taka kosninguna þar gilda. Atkvæðamunur þar er svo mikill, að engin hætta er á, að breyting hefði getað orðið á úrslitum kosninganna. Eina verulega atriði kærunnar er það, að annað þingmannsefnið, er kosningu hlaut, hafi gefið út seðla líka kjörseðlunum. En við nánari athugun eru seðlar þessir svo gjörólíkir kjörseðlunum, bæði að breidd og lengd, og rendurnar utan með svo alt öðruvísi, að óhugsanlegt er, að kjörstjórn geti vilst á þeim. Er þetta atriði kærunnar því ekki stórvægilegt. Hins vegar er það rjelt, að þingið viti það, að búa til slíka seðla, svo að ekki komi hið sama fyrir aftur, eða lengra verði gengið í því efni en hjer hefir átt sjer stað. Því þótt líkingin hafi ekki verið mikil, á milli þessara tilbúnu seðla og sjáltra kjörseðlanna, í þetta sinn, þá getur hún orðið meiri síðar, ef samskonar aðferð væri viðhöfð.

Í Árnessýslu eru kæruefnin tvö. Annað frá Jóni Jónatanssyni, að ekki hafi verið tekið gilt framboð hans. Álít jeg að yfirkjörstjórn hafi þar ekki rangt gjört, og sje fullkomlega í rjetti sínum, þótt henni hafi ef til ekki farist lipurlega, gagnvart frambjóðanda þessum. Tel jeg þetta því enga ástæðu til að ónýta kosninguna.

Annað atriði kærunnar, og þýðingarfyllra, er það, að kosið hafi í sumum hreppum menn, sem ekki voru á kjörskrá, og í öðrum hafi verið meinað að kjósa, mönnum sem á kjörskrá voru. Þetta má enganveginn svo til ganga átölulaust. Það liggur í augum uppi, að hver undirkjörstjórn verður að fara eftir þeirri kjörskrá, sem fyrir er, og má alls ekki leyfa sjer þá óhæfu, að fara sjálf að búa til aðra kjörskrá, til þess að láta kjósa eftir.

Þá er kæran úr Mýrasýslu, og virðist hún athugaverðust allra þeirra kæra, sem fyrir liggja út af kosningunum í þetta sinn. Í fyrsta lagi er það mjög athuga- og vítavert, hve margir hafa kosið heima, með vottorði eða uppáskrift hreppstjóra, og það því fremur, sem sá hreppstjóri, sem lengst hefir gengið í þessu efni, er sjálft þingmannsefnið, einn af frambjóðendunum, sem talið er að hlotið hafi kosninguna.

Það mun koma fram, ef þetta verður leyft vitalaust, að þá munu kjörfundirnir smátt og smátt hverfa úr sögunni. Það liggur í augum uppi, að það er miklum mun þægilegra fyrir kjósendur, að geta mœtt einhverntíma fyrir kjörfund hjá hreppstjóranum, og jafnvel þurfa ekki neitt að ómaka sig að heiman, til þess að greiða atkvæði, heldur en binda sig við að mæta á sjálfum kjörfundinum. Þá geta þeir kosið, þá er þeim er hentast, en kjörfundardagurinn getur að ýmsu verið óheppilegur fyrir þá, og þeir gætu auk þess verið þá forfallaðir. Þetta, ef það er aðfinningarlaust látið viðgangast, leiddi því bersýnilega til þess, að kjörfundirnir fjellu niður.

Í kærunni kemur það einnig fram, að hreppstjóri hafi tekið á móti atkvæðum annara en hreppsbúa sinna, en þetta er ekki heimilt eftir kosningarlögunum ; á því er enginn vafi. En sjerstaklega er það þó ískyggilegt og óþolandi, þegar frambjóðandi sjálfur hefir mest gjört sig sekan í þessu efni. Það er fyrst og fremst með tilliti til þessara galla, að jeg álít rjett, að kosningunum í þessum 2 kjördæmum sje vísað til nefndar til umsagnar og íhugunar.

Gallarnir á þessum kosningum eru svo miklir, að það er ekki rjett að samþykkja þær orðalaust, og því rjett, að nefnd geti athugað kærurnar, og þingmenn geti fengið ýtarlegar að hugsa málið, því þá fyrst er málið orðið nægilega skýrt; þá fyrst er er hægt að greiða til fullnustu atkvæði um það, hvort þessar tvær kosningar, í Árnessýslu og Mýrasýslu, skuli taka gildar eða ekki. Fyr er, frá mínu sjónarmiði, ekki hægt að greiða atkvæði með því, að þær skuli gildar taka, jafn gallaðar sem þær eru, og að minsta kosti gjöri jeg það ekki.