13.01.1917
Sameinað þing: 4. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Pjetur Ottesen:

Jeg vil að eins með fáum orðum gera grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli.

Jeg hefi frá upphafi talið það sjálfsagðan hlut, að þinginu bæri að rjetta starfsmönnum landsins hjálparhönd nú í dýrtíðinni. En jafnsjálfsagt hefir mjer alt af virst það, að sú hjálp yrði nokkuð að vera miðuð við kjör og kringumstæður manna.

Dýrtíðin nær til allra, og fyrir utan þá, sem landssjóðnum eru áhangandi, er stór flokkur manna, verkamenn og smærri framleiðendur, og sjer í lagi þeir af þessum mönnum, sem ala fólkið upp fyrir þjóðina, fjölskyldumennirnir, sem stynja undir oki dýrtíðarinnar.

Það dugir ekki að loka augunum fyrir þessu, þegar verið er að tala um dýrtíðaruppbót til launamanna landssjóðs.

Í þingsál. till. þeirri um dýrtíðaruppbótina, sem hjer liggur nú fyrir, er ekkert tillit tekið til þess, hvort sá, er uppbótina á að fá, er einhleypur maður, ómagamaður, eða á nokkurn hátt þurfandi fyrir byrðaljetti í þessu efni.

Tilraun sú, sem samþykt var í Nd. í þá átt, að tillit yrði tekið til þessa, þóknaðist hv. Ed. ekki einasta að breyta, heldur strika með öllu út.

Hv. Ed. var nú raunar nokkur vorkunn, þó að hún aðhyltist ekki þá till., sem þó var nokkuð í áttina til þess, er jeg held fram, en þar sem hún kom ekki með neitt í staðinn, þá er þar með sýnt, að hún hefir verið á sama máli og meiri hluti fjárveitinganefndar Nd. um það, að miða dýrtíðaruppbótina einvörðungu við launin.

Við umræðurnar um þetta mál í Nd. var einnig gjörð önnur tilraun, er gekk í þá átt, að breyta nokkuð launa- og hundraðstölu-hlutföllunum, og að hver sem ætti tvö börn eða fleiri innan 16 ára aldurs, skyldi fá 50 kr. með hverju barni.

Þessi till. hafði auðvitað sína galla, en að því er fjölskyldumennina snerti, gekk hún þó í rjetta átt.

Það var hvorttveggja, að við, sem komum fram með þá till., urðum að semja hana í mesta flaustri, enda átti hún sjer ekki langan aldur, því að hún var drepin eftir að nokkrir mælskumenn deildarinnar höfðu heiðrað hana með lofsamlegum ummælum sínum.

Því er þá þann veg farið, að allar frekari tilraunir, sem gjörðar hafa verið í þá átt, að það sje mest ljett undir með þeim, sem helst þurfa þess með, en hinir látnir sigla sinn sjó, sem nógu hafa úr að spila, hafa, því miður, verið brotnar á bak aftur. Þá lýsi jeg því hjer með yfir, að jeg mun nú greiða atkvæði á móti þingsál.till. þeirri, sem hjer liggur fyrir.