13.01.1917
Sameinað þing: 4. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Bjarni Jónsson:

Jeg hefði getað sparað mjer að standa upp eftir orð hv. l. þm.Húnv. (Þór. J.). Hann hefir komið drengilega fram í þessu máli, eins og hans er venja í öðrum þingmálum. Þó vildi jeg mega gjöra fáeinar athugasemdir, sjerstaklega út af ræðu hv. þm. Borgf. (P. O.) Honum þótti mælikvarði nefndarinnar ranglátur, og uppbótin koma niður á of mörgum. Það hefir þó verið sýnt, að með líkingu þeirri, er nefndin lagði til grundvallar. Fellur lína uppbótarprósentanna í jafnan boga. En með till. hans lítur sú lína svo út, sem nú skal sýnt:

50%

40%

30%

25%

15%

10%

1000 kr. 1500 kr. 2000 kr,. 3000 kr. 3500 kr. .4000 kr.

Eins og menn sjá, er hjer enginn jöfnuður, heldur hoppað stall af stalli, eitt þrepið af öðru. Hefði því ekki verið viðlit að samþykkja þá tillögu, án þess að laga mælikvarðann, og reikna út á ný. (Pjetur Ottesen: Vjer höfum engan tíma haft til þess.) Það er þingmönnum sjálfum að kenna. Mjer lá ekkert á, að þingi yrði slitið. Annars efast jeg um að hægt sje að koma þessu heim, sem hv. þm. (P. O.) vill halda fram. Honum varð tíðrætt um einhleypa menn og barnamenn. Jeg gat þess í hv. Nd. að til einhleypra manna teljast ýmsir gamlir ekkjumenn og ekkjur, sem ekki hafa annað en eftirlaunin að lifa af. Mönnum hefir víst aldrei dottið það í hug, að einhleypar konur væri til, er lifðu á litlum eftirlaunum, og að með þessu væri klipið af þessu litla, sem þær hefðu til að lifa af. Brtt. er því miklu órjettlátari en till. nefndarinnar. Nefndin syndgaði þó í þá áttina, sem varkárari var, með því að veita heldur fleiri en færri dýrtíðaruppbótina. Það er gaman að heyra, að menn sje brjóstgóðir og vilji hjálpa fátækum. Mjer hefði þótt vel, ef þingið hefði þótst geta gjört eitthvað til þess. Jeg bar fram frv., er hefði getað ljett af fátæklingum miklum fjárútlátum, en þessir hv. þm. hafa ekki hjálpað mjer til að ýta þessu máli áfram, og ná því úr sæti þeirrar hv. nefndar, er um það fjallaði sjer til til verðugs heiðurs, og skildist við það með samningu eins hins merkilegasta nefndarálits. Mjer virðist kenna hjá mönnum misskilnings á orðinu fastanefnd, Menn virðast skilja það orð svo, að slíkar nefndir eigi að halda föstum málum þeim, er þeim eru falin til meðferðar.

Jeg vil spyrja þá, sem þykjast vilja hjálpa þeim, sem nauðulega eru staddir, hvort það sje beinasta leiðin, að strika nú, út þessa hjálp, sem búið er að samþykkja að veita, fleygja málinu í stjórnina, og segja henni að búa það undir næsta þing. Það var rjett sem hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J). tók fram, að drengilegra hefði verið mönnum þeim. er nú kljúfa nefndina á síðustu stundu, eins og þeirra var von og vísa, að láta ágreiningsatriði sín koma fyr fram. Þeir hafa þótst fylgja málinu, en ráðast nú að því á síðustu stundu. Þetta getur að vísu verið viturlegt hernaðarbragð til að drepa málið, en drengilegt getur það ekki heitið.

Hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) sagði, að rjett væri að leita til þjóðarinnar um þetta mál. Eg skil það svo, að hann ætlist hjer til þjóðaratkvæðis eins og um þegnskylduvinnuna. Þess má geta, að sennilega mun slíkt þjóðaratkvæði kosta rösklega mismuninn á till. hans og nefndarinnar. Jeg býst sem sje ekki við, að hann ætli sjer einungis að spyrja þær fáu hræður, sem slæðast á þingmálafundi; það er ekki nema örlítill hluti af þjóðinni. Jeg vil því geta mjer þess til, að hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) vilji með þessum orðum sínum skjóta oss skelk í bringu, en muni greiða atkv. öðruvísi en hann hefir sagt. Býst jeg ekki við, að hann, sem ber hag svo margra fyrir brjósti, vilji láta það bitna á fátækum barnamönnum, þótt ekki sje alt eins og hann vildi helst. Það má gera ráð fyrir, að aðrir vinnuveitendur taki Alþingi sjer til fyrirmyndar. Vil jeg ekki fjölyrða um ábyrgð þá, er Alþingi ber þá gagnvart öllum landsmönuum.

Jeg vil ekki fjölyrða um þetta mál. Jeg tel það ekkert stórmál og mjög einfalt og óbrotið. Svo líta og aðrar þjóðir á. Slíkt mál hefir í nágrannalöndunum gengið í gegn þegjandi og hljóðalaust. Hvorki jafnaðarmenn nje bændur hafa þar risið upp til andmæla, eða viljað eyða tíma til að hnitmiða uppbótina við efnahag þjónanna, heldur hafa þeir reynt að nota vit sitt, til að ráða bót á verslunar- og samgönguvandræðum.

Býst eg þess vegna við, að þessi till. verði samþykt, og enginn gjöri smá meiningamun að svo miklu kappsmáli, að hann fyrir það vilji drepa málið. Tel jeg víst, að menn vilji ekki komast í slíka mótsögn við sjálfa sig síðustu daga þingsins. Þetta mál þarf ekki nema hálfrar mínútu umhugsun; það liggur svo ljóst og einfalt fyrir í aðalatriðinu.