13.01.1917
Sameinað þing: 4. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Jörundur Brynjólfsson:

Að eins örfá orð. Jeg bjóst satt að segja ekki við að nokkrar umræður yrðu nú um þetta mál, og hefði helst kosið, að þurfa ekki að taka til máls, og hefði ekki gjört það, ef mín hefði ekki verið sjerstaklega getið í umræðunum. Það var hv. frsm. fjárveitinganefndar Nd. (G. Sv.), er vjek nokkuð að brtt. þeirri, er jeg tlutti ásamt hv. 1. þm. Árn. (S. S.) og hv. þm. Borgf. (P. O. ). Við bárum hana fram af því, að okkur fanst grundvöllur nefndartillögunnar ekki rjettlátur. Við vildum gjöra meiri jöfnuð, taka meira tillit til efnahags þiggjenda. Það er enginn greinarmunur gjör á einhleypum og fjölskyldumönnum. Í mælikvarða okkar verður ekkert stökk, eins og hv. þm. Dala. (B. J.) talaði um. Hann á að vera jafn. Prósentutalan (uppbótarprósentan) breytist stig af stigi eftir launahæð, alls ekki í stökkum.

Tillaga okkar var rjettlát, af því að eftir henni fengu fjölskyldumennirnir meiri uppbót en einhleypingar; fengu nærfelt hið sama og eftir till. nefndarinnar.

Hv. þm. Dala. (B. J.) var að gera veður út af því, að við værum að draga af mönnum, en nú geta allir sjeð tillöguna, og þá sjá þeir hvað satt er í orðum hans. Hinn ósanngjarni dómur hans er svo augljós hverjum rjettsýnum manni, að jeg þarf ekki að eyða frekar orðum að því.

Jeg hefði kosið, að hv. fjárveitingarnefnd hefði lagt þennan grundvöll fyrir dýrtíðartillögum sínum, en því láni er eigi að heilsa.

Og taka vil jeg það skýrt fram, svo alþjóð megi það ljóst vera, að það er ekki oss, flm. till., að kenna, þótt vjer gætum ekki yfirvegað hana grandgæfilega og út í æsar. Það er að kenna hinu dæmafáa flaustri á störfum Alþingis; svo mikið er flaustrið og óvandvirknin, að stórmál eru rekin áfram í gegnum þingið, alveg óhugsuð og athugunarlítið. Og jeg skil ekki, hvernig hv. þm. ætla að verja þessi vinnubrögð þingsins fyrir þjóðinni. (Bjarni Jónsson: Greiddi ekki þingmaðurinn atkvæði með þinglausnum í dag?) Jú, (Bjarni Jónsson: Einn rekur sig á annars horn) en það var af því, að þá var búið að flaustra hjer af hinum mestvarðandi málum þingsins. (Bjarni Jónsson: Þetta er hlægilega illa fóðrað!) Þótt hv. þm. Dala. (B. J.) vildi lengja þingtímann, til þess að halda hjer ljelegar ræður um hjegómlegar tillögur sínar, þá get jeg ekki greitt atkvæði með því. (Bjarni Jónsson: Jeg hefi aldrei haldið svona vitlausa ræðu). (Forseti: Má jeg biðja um hljóð, og hv. þm. að halda sjer við efnið). Jeg mun halda mjer við efnið, ef hv. þm. Dal. (B. J.) er ekki alt af með vitlausar innskotssetningar.

Jeg mun, þó jeg telji þessa till. að mörgu órjettláta, greiða atkvæði með henni. Sú sök liggur þar til, að jeg tel, að þeir er mesta þörf hafa fyrir þessa uppbót, fátækir og lágt launaðir starfsmenn, eigi ekki að gjalda óheppilegra vinnubragða þingsins.

En eigi dylst mjer það, að hægt hafi verið betur að gjöra, ef tími hefði verið til, (Bjarni Jónsson: Og þeir færir um það.) Jú — þeir þyrftu bara að vera öðru vísi gjörðir en hv. þm. Dala. (B. J.).