13.01.1917
Sameinað þing: 4. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Jón Jónsson :

Eigi skal jeg langorður vera, því að mjög er á þingtímann liðið, og þörf á að nota vel hinn skamma tíma, sem eftir er.

Hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) sagði, að það hefði verið drengilegra af okkur, er sæti eigum í fjárveitinganefnd Nd, og nú snúumst móti tillögunni, að kljúfa nefndina, heldur en að snúast á móti málinu á síðustu stundu.

Þetta eru ósanngjörn ummæli, því að við ætluðum okkur að koma fram með brtt.

Jeg er samþykkur hundraðsgjaldi því til árbótar, er nefndin lagði til, en jeg vildi ekki, að uppbótin næði til allra.

Jeg vildi fá undantekningar frá reglunni, og með því að jeg taldi það sanngjart mjög, þá bjóst jeg við að hv. þm. mundu samþykkja það, en sú raun hefir eigi á orðið. Og er jeg satt að segja hissa, er hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) talar eins og hann gjörir, því að hann hefir látið það í ljós við mig, að hann álíti rjett, að slíkar undanþágur væru gjörðar.

Að þessu miðaði tillaga sú, er við þingmenn N.-M. bárum fram, en ekki fann náð fyrir augum þingsins.

Það er því ekki einkennilegt, þótt við fylgjum málinu ekki lengur, enda vil jeg vekja athygli hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) á því, að við viljum ekki fella málið, heldur að eins skjóta því á frest til næsta Alþingis, þar sem væntanlega verður lengri og betri tími til að athuga það.

Þar sem hv. þm. Dala. (B. J.) bjóst við því, að jeg vildi skjóta þessu máli undir þjóðaratkvæði, þá er það misskilningur hjá þessum hv. þm. sem oftar; það var ekki ætlan mín, heldur að málið geti verið rætt á þingmálafundum til athugunar og bendingar fyrir þingið.

Hv. þm. Dala. (B. J.) lyktaði ræðu sína með hinni venjulegu ósvífni gagnvart öðrum þingmönnum, en hv. þm. má vita það, að orð hans, hver sem eru, geta ekki hrinið á mjer, og mjer liggja ummæli hans í ljettu rúmi.

Hann var að láta undrun sína í ljós yfir því, að jeg skyldi nú ekki koma fram með brtt.

Til þess eru þær orsakir, að jeg tel mig hafa ofnauman tíma til þess. Og svo er ekki rjett, í máli sem þessu, að koma fram með tillögur nema með því móti, að hægt sje að athuga málið rækilega frá öllum hliðum.

Jeg kom hjer með brtt. við málið í hv. Nd., en jeg tók hana aftur, vegna þess, að svo mikill úlfaþytur varð um hana í deildinni.

Eins og málinu hagar nú, þá tel jeg þann kost vænstan, að greiða atkvæði á móti tillögunni, og fresta málinu til næsta þings, því að nú er enginn tími til að afgreiða málið svo vel sje. (Bjarni Jónsson: Mátti ekki framlengja þingið?).

Jeg hefi fyrir satt, að tillaga okkar þm. N.-M. hafi engan byr á meðal hv. efri-deildarmanna, og því víst, að hún mundi ekki ná samþykki nú. En það var heppilegasta leiðin í þessu máli, sem þar var bent á.

Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) lýsti yfir því, að hann ætlaði sjer að greiða atkvæði með málinu. Kom þar fram hjá honum sami tvíveðrungurinn og hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.).

Þeir vilja láta meiri hlutann ráða, drattast með honum, en hafa eigi dug í sjer til að vera í minni hluta.

Það þykir mjer skrítin framkoma.

Þá framkomu skil jeg ekki.

Jeg vil að lyktum taka það fram, að jeg er í sjálfu sjer ekki á móti því, að dýrtíðaruppbót sje veitt, en það tel jeg rjett vera, að málinu sje skotið á frest, svo að rjettmætar undantekningar megi gjöra. Og þessar undantekningar mátti gjöra samkv. till. okkar þm. N.-M., og þá hefðu sparast tugir þúsunda fyrir landssjóð.