13.01.1917
Sameinað þing: 4. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Þórarinn Jónsson:

Mjer þykir það næsta einkennilegt, að hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) skuli vera hissa á því, að jeg skuli vera með dýrtíðaruppbót til opinberra starfsmanna og embættismanna, því að jeg hefi alt af með slíkri uppbót verið, og talið hana rjettláta.

En rjett er það, að jeg var með brtt. hans, því að jeg taldi hana til bóta, eftir þeim grundvelli, er fjárveitinganefndin byggir á. Því, eftir grundvelli hennar, er þetta styrkur. En hv. þm. tók þá tillögu aftur, og hefir síðan enga brtt. gjört, og er það því undarlegra.

En hitt er annað, að jeg lít svo á, að allir embættismenn hefðu átt að fá uppbót, og „skalinn“ því að ná yfir alla, en mikið lægri. Og mátti þá t. d. vera 10% í stað 25%, eða sem millistig á milli 25% og 5%.

En það er alrangt, að jeg hafi nokkru sinni verið á móti því, að veita dýrtíðaruppbót, og þótt brtt. næði ekki fram að ganga, þá vil jeg ekki drepa málið.