06.01.1917
Efri deild: 13. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Kristinn Daníelsson:

Þetta er svo þýðingarmikið mál fyrir þjóðina, að það er eðlilegt, að fleirum þyki ástæða til að láta í ljós um það hugsanir sínar, heldur en þeim, sem eru nefndarmenn eða framsögumaður. Vil jeg því einnig leyfa mjer að koma með fáeinar athugasemdir, sem ekki skulu þó lengja umræðurnar að neinum mun, og jeg ætla ekki með þeim að vekja neinar deilur um málið.

Jeg hygg að allir muni kannast við, að Íslandsbanki sje það afl í þjóðlífi voru, geti þar svo miklu ráðið, að ekki getur staðið á sama, hver eru afskifti þings og stjórnar af málum hans. Hygg jeg, að það sje mjög áríðandi, að afskifti þau, sem þing og stjórn landsins hafa af bankanum, sje vandlega huguð og á góðum og hollum rökum bygð, og ber þar tvenns að gæta, að bankinn fái að njóta sanngjarnra rjettinda sinna til að vinna hlutverk sitt til gagns fyrir þjóðina, en verði hins vegar þjóðinni ekki ofjarl.

Allir vita, að í bönkunum er fjármagnið, og að fje er það vald, sem flestu kemur til vegar og beita má bæði til góðs og ills.

Þessi banki er, eins og kunnugt er, útlend stofnun og aðalstjórn hans útlend. En fyrir öllum mun það vaka, að fjármál vor komist öll undir innlend yfirráð og að bankinn verði sem fyrst innlend eign, og það fyr en hinn umsamdi tími fyrir seðlaútgáfurjettinn er útrunninn. En til þess er nauðsynlegt að þinginu takist að gjöra viturlegar lagaákvarðanir um bankann og seðlaútgáfurjett hans.

Nú, þing eftir þing, hefir bankinn krafist þess, að fá að auka seðlaútgáfurjettinn eftir því sem viðskiftaþörfin krefur. En „viðskiftaþörfin“ er óákveðið hugtak og þýðir hjer sama sem það, sem bankinn telur að viðskiftaþörfin krefji. En það hlýtur að geta verið misjafnt, eftir því hvernig á er litið, hvort litið er á þörf og hagsmuni bankans, eða það eitt, sem er brýn nauðsyn þjóðarinnar. Og þingið hefir ekki heldur viljað fallast á þetta, nema með takmörkunum. Því að með lögum 9. september 1915 heimilaði það bankanum að eins að auka seðlaútgáfuna um 1 miljón króna og til frekari áherslu sló það þann varnagla, að í lögunum stendur: í mesta lagi eina miljón. Þingið ætlaðist til að alls ekki yrði farið fram úr því. — En aftur hefir stjórnin gjörst leiðitamari með því að veita heimild til mjög aukinnar seðlaútgáfu með bráðabirgðalögum, og liggja þau nú hjer fyrir þinginu. Jeg ætla mjer að vísu ekki að hafa í frammi neinar bítur um þetta, — Það er búið sem búið er og auk þess á sú stjórn, sem hlut á að máli, hjer ekki sæti og getur ekki varið sig í þessari háttv. deild, og get jeg því ekki verið að gjöra árás á hana, eins og sakir standa, enda þótt jeg geti ekki látið hjá líða að lýsa óánægju minni yfir því, að þessi afdráttarlausu ummæli þingsins skyldu vera að engu virt.

Jeg veit það vel, að það er ekki brot á stjórnarskránni, þótt gefin væru út bráðabirgðalög. En hjer voru þau áreiðanlega gefin út á móti vilja og tilætlun þingsins. Það hafa verið gefin út tvenn bráðabirgðalög um seðlaukning fyrir bankann. Hin fyrri frá 29. sept. f. á., að eins fáum dögum eftir að þinginu sleit með orðin á vörunum „í mesta lagi eina miljón“. Samkvæmt þeim fekk bankinn að gefa út aðra miljón, og hafði þá orðið rjett á að gefa út samtals miljón. Og hjer á ofan komu þessi bráðabirgðalög í maí, er heimila stjórninni að leyfa bankanum að gefa út seðla, svo sem viðskiftaþörfin krefur, og samkv. þeim hefir honum verið leyft að gefa út 3 miljónir um fram upphaflega seðlafúlgu.

Fyrir þessari kröfu bankans um aukna seðlaútgáfu, eru færðar aðallega tvær ástæður. Fyrst sú, að bankinn hafi fengið seðlaútgáfurjettinn og eigi hann. Þetta er satt, með takmörkum. Bankinn hefir fengið einkaleyfi til seðlaútgáfu, en hann á ekki rjett á að gefa út meira en miljón. Jeg mótmæli því, að nokkuð sje gengið á rjett bankans, þótt hann fái ekki að gefa út seðla þar fram yfir. það er dýrmætur rjettur landsins, að láta ekki meira af hendi, nema í móti komi nokkur þau hlunnindi, er á ný verður að semja um. — Hin aðalástæðan, sem fram er borin, er nauðsynin fyrir bankann á auknum gjaldmiðli. Þar verð jeg að taka undir með háttv. þm. Vestm. (K. E.), að jeg hefi ekki getað sannfærst um að nauðsynin hafi verið brýn og óhjákvæmileg. Jeg skal ekki neita því, að það hafi getað verið rjett, en það gat þá verið vegna þess, að bankinn hafði ekki gjört neina ráðstöfun þessu til varnar, en treysti á, að fá á þennan hátt leyfi til að auka seðlaútgáfuna. Það má vel vera að nauðsynin hafi verið 29. sept. 1915. En var það þá ekki vegna þess, að bankinn hugsaði ekki fyrir því í tíma? Hann gat gjört ýmsar aðrar ráðstafanir heldur en að auka seðlaútgáfuna. Hann gat dregið inn fje er hann átti inni í útlendum bönkum, tekið lán eða aukið hlutafjeð. En ef maður leggur saman löglega seðlaútgáfu bankans, og innieign hans á hverjum tíma í erlendum bönkum, þá er það, saman lagt, ætíð meiru en það fje, sem hann hafði úti í seðlum á sama tíma, jafnvel þá er hann hefir haft mest úti. Jeg hefi því ekki getað orðið sannfærður um, að brýn þörf hafi verið að auka seðlaútgáfuna, síst meira en lögin frá 1915 leyfa. Hygg jeg, að hafi ekki verið sýnt nægilega fram á, að hann hafi þurft á meiri aukning að halda en þessari 1 miljón, er honum var veitt með þeim lögum. — Jeg skal annars kannast við að jeg tel minna í húfi með frumvarpið í þessu formi og með þeirri breyting, er nefndin leggur til, og jeg get borið það traust til stjórnarinnar, að hún noti þessa heimild með varúð, enda þó að slík fordæmi geti dregið dilk á eftir sjer og orðið að föstum lögum, en jeg hygg að það verði að fara varlega og vandlega að huga að, hver skilyrði skuli setja, ef til þess kemur að auka seðlaútgáfurjett Íslandsbanka. Og jeg vil að lyktum taka undir það með hv. þm. Vestm. (K. E.), að skírskota til þess nefndarálits, er hann minti á, frá 1914. — Enda þótt nokkrum kynni að finnast þar full fast kveðið að einhverju, þá eru þar þó vafalaust atriði, sem vert er taka til greina, áður en afhentur er rjettur til frekari seðlaútgáfu.