06.01.1917
Efri deild: 13. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Magnús Kristjánsson:

Jeg álít að umræður um þetta mál hafi ekki mikla þýðingu. Hjer er meira um formatriði að ræða, og kemur líklega engum til hugar að deildin vilji neita um samþykki sitt til þessarar ráðsstöfunar. Jeg lít svo á, að á síðasta þingi hafi öllum komið saman um, að þingið gæti ekki annað en falið stjórninni og nefnd þeirri, er var skipuð henni til aðstoðar, þetta mál á hendur, og að naumast sje við því að búast, að hægt hafi verið að ganga frá því á annan heppilegri hátt en orðið er,

Þessar upphæðir virðast nokkuð háar, en þegar þess er gætt, að flestar vörur, bæði útlendar og innlendar, hafa hækkað svo mjög í verði, er þetta ekki gífurlegt og ekki nema eðlilegt að meiri gjaldmiðil þurfi í landinu, ef viðskiftin eiga að geta gengið nokkurn vegin greiðlega. Og ekki var mönnum ljóst í byrjun, þegar Íslandsbanka var veittur seðlaútgáfurjetturinn, að tímarnir mundu breytast svo stórfenglega.

Jeg sje enga ástæðu í sjálfu sjer til að tala meira um þetta; tel sjálfsagt að samþykkja það. En hitt tel jeg vel til fallið, að málið í heild sinni verði tekið til rækilegrar meðferðar á næsta þingi.

Það eina, sem að mínu áliti hefði getað gefið ástæðu til, að telja þetta óheppilega ráðstöfun, er það, ef svo hefði staðið á, að Landsbankinn hefði á sama tíma haft mikla peninga fyrirliggjandi, sem hann hefði ekki getað ávaxtað sæmilega. En þessu hefir, mjer vitanlega, ekki verið haldið fram, og jeg hygg, að fullyrða megi, að svo hafi ekki verið.

Jeg býst við að allir sjeu mjer sammála um það, að þessi ráðsstöfun hafi á engan veg verið óheppileg nje ástæðulaus.