08.01.1917
Efri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Framsögumaður (Hannes Hafstein):

Jeg heyrði að háttv. þm. Ísf. (M. T.) ætlaði að greiða atkvæði með frumvarpinu, og get jeg því verið stuttorður í svari mínu til hans.

Hann vildi líta svo á, að með lögunum frá síðasta þingi, er heimiluðu seðlaaukningu um 1 miljón króna, hefði þingið lagt pólitískt bann gegn því, að bráðabirgðalög um seðlaaukning væru gefin út. En þessi skilningur hv. þm. getur ekki verið rjettur, því að samhliða því, að þingið samþykti þau lög, þá setti það á fót nefnd, Velferðarnefndina, til að vera í ráðum með stjórninni um alt það, er snertir verslun og viðskiftaþörf landsins, á þessum ófriðartímum, og ráða fram úr þeim vandkvæðum, er upp kynnu að rísa. Stjórnin hlaut að hafa ekki að eins hið lagalega vald, heldur fullkomna pólitíska heimild löggjafarþingsins, til þess að ráða fram úr þessu máli, með ráði Velferðarnefndarinnar, alveg eins og gjört var, án tillits til þess, sem einhverjum þm. kynni að hafa verið í huga undir öðrum kringumstæðum.

Hv. þm. Ísf. (M. T.) þótti of skammur tími liðinn frá þinglausnum til útgáfu bráðabirgðalaganna. En á ófriðartímum skipast margt á skemmri tíma en 14 dögum, það er miklum breytingum veldur, enda engin slík tímatakmörk fyrir heimild þeirri, er stjórnarskráin veitir til bráðabirgðalaga. Á örstuttum tíma geta verið gjörðar, og voru í raun og veru gjörðar, mjög miklar kröfur til bankans, meiri en nokkurn hafði varað fyrirfram. Geti bankinn ekki fullnægt kröfunum, þá getur hlotist af því stórtjón. Þessi eina miljón, er ræðir um í lögunum frá 9. sept. 1915, var notuð strax, var meira að segja búið að ráðstafa henni eða lofa fyrirfram, þegar er lögin hlutu staðfestingu, og stjórnin veitti heimildina eftir þeim.

Þá þótti hv. þm. (M. T.) það óheimilt eða athugavert, að gullforði bankans væri geymdur annarsstaðar, heldur en hjer heima, og fann það frumvarpi þessu til foráttu. Út af þessu vil jeg taka það fram, að gullforði sá, er var hjer til í byrjun ófriðarins, liggur enn þá niðri í skáp í Íslandsbanka, og er skápurinn innsiglaður með innsigli stjórnarinnar. Gullforði sá, er bankinn hefir síðan bætt við, hefir ekki getað orðið fluttur hingað, meðan bannað var algjörlega að flytja gull út frá Danmörku og Noregi, og hefir hann því, með fullu samþykki landsstjórnarinnar, verið geymdur sumpart hjá Þjóðbankanum í Kaupmannahöfn sem depositum, en sumpart í Kristianíu hjá Norges Bank, og tel jeg það alveg eins trygt, eins og að hætta honum í póstskipum vorum undir skeyti neðansjávarbátanna. Nú hefir í seinni tíð rýmkast nokkuð um í þessu efni á ýmsan hátt.

Í ráðherratíð Einars Arnórssonar var sem mest af gulli því, sem geymt var í Kaupmannahöfn flutt til Noregs, því þar var það, ef svo má að orði kveða, fjær kanónukjöftunum, ef Danmörk kynni að lenda í ófriðnum. — Annars ætti fjeð ekki að vera í neinni hættu í Kaupmannahöfn, þótt Danmörk lenti í ófriðnum, því fjeð liggur ekki saman við gull þarlendra banka, heldur er það geymt alveg aðskilið, sem tilheyrandi landi, sem hefir alveg aðskilinn fjárhag frá Danmerkur ríki, og væri það því fjandsamlegt athæfi gegn Íslandi, en ekki Danmörku, ef fjeð væri tekið. En mjer þykir ekki líklegt, að liggja muni nærri Þýskalandi, að grípa til okkar fátæklegu fjármuna, þó þeir væru geymdir í óvinalandi þeirra.

Háttv. síðasti ræðumaður (M. T.) talaði um, að ekki mætti með lögum þessum gefa neitt fordæmi ókomnum tímum. Hjer er ekki um neitt fordæmi að ræða, heldur brýna þörf, sem úr þarf að bæta. En mín sannfæring er sú, að atvinnuvegir vorir og verslunarfyrirkomulag sjerstaklega sje nú komnir á þann rekspöl, að þörf sje í framtíðinni fyrir miklu meiri seðlafúlgu heldur en verið hefir. Verslun landsins er nú óðum að verða alinnlend, en þar af leiðir, að miklu meira fje verður í umferð innanlands árið um kring en hingað til hefir þurft. Til seðlabanka landsins verða auðvitað kröfurnar gjörðar, að hafa nægan gjaldmiðil til, og það er naumast vansalaust, ef innanlandskritur skyldi valda því, að við neyddumst til, að nota stórvægilega seðla útlendra banka til innanlands viðskifta.

Jeg man svo ekki eftir, að það sje annað eða fleira, sem jeg þarf að svara af ræðu háttv. þingm (M. T.). Margt hefir víst verið þar vel og rækilega hugsað, en þar sem þetta mál kemur væntanlega til umræðu síðar á þessu ári, á reglulega þinginu, finst mjer ekki ástæða til að eyða löngum tíma í það nú.