12.01.1917
Efri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Frsm. (Hannes Hafstein):

Hv. 2. landsk. þm. (S. E.) áleit hættu á því, að það mundi verða frv. til falls, ef afgjaldsupphæðinni væri nú breytt, með því að frv. hefði verið samþykt, eins og það er nú, með 19 atkv. í Nd.

En jeg get frætt hv. þm. um það, að margir, sem greiddu atkv. með frumvarpinu svo orðnu í Nd., gjörðu það af því, að tillaga um lækkun niður í 2% var ekki fram komin, en munu vafalaust greiða atkvæði með frumvarpinu svo breyttu, þegar það kemur aftur niður í Nd., og tel jeg því vísan framgang þar.

Alt tal um það, að stofnað sje til ágreinings við háttv. Nd. með því að samþykkja breytingartillögu nefndarinnar, um að setja frumvarpið aftur í status quo, er ástæðulaust. Mjer er kunnugt um, að verði brtt. nefndarinnar samþykt hjer, þá á hún sjer víst samþykki flestra þingmanna í Nd., sem í gærkveldi samþyktu l% niðurfærslu frá því, sem í ógáti var samþykt við 2. umræðu málsins.

Einn háttv. þm. sagði um gullforðann, að hann væri allur kominn til útlanda. Þetta er alls ekki rjett. Frá því stríðið hófst hefir alt það gull, sem þá var hjer í forða, verið geymt í bankanum forsiglað með innsigli stjórnaráðsins, og nú í haust var sent hingað heim í gulli til bankans 400000 kr. til viðbótar við forðann. Meðan bannað var að flytja út gull frá Danmörku, og undantekningarleyfi fjekst ekki, varð að geyma talsvert af „fluktúerandi“ gullforðaviðbótum bankans utanlands, og var það gjört með fullu samþykki landsstjórnarinnar, enda er í lögunum ekkert, sem bannar þetta. Fje það, sem hefir verið geymt utanlands af málmforða bankans, hefir verið geymt, sem sjerstakt depositum í Þjóðbankanum í Kaupmannahöfn og Noregsbanka

Kristianíu. Annars skýrði jeg frá öllu þessu nákvæmlega við 2. umræðu um þetta mál í þessari hv. deild um daginn og, ætti að vera óþarfi að endurtaka það aftur og aftur.