29.12.1916
Efri deild: 7. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Halldór Steinsson:

í gær var þetta mál til umræðu í hv. Nd. og því hraðað svo mjög, lítt upplýstu, sem lífið lægi við, að þessir þríburar fæddust áður en dagurinn væri á enda.

Jeg vil taka það fram, að jeg býst ekki við, að varpa neinu nýju ljósi yfir þetta mál hjer í deildinni, en þar sem jeg bjóst við að hafa sjerstöðu að því, þótti mjer hlýða að gjöra örlitla grein fyrir atkvæði mínu.

Það hafa aðallega verið færðar til þrjár ástæður fyrir því, að þetta frumvarp hefir komið fram. Í fyrsta lagi, að störf stjórnarinnar væru orðin svo mikil og margskonar, að ókleift væri einum manni að fást við þau, svo vel fari úr hendi. í öðru lagi fengist meiri trygging fyrir sjerþekkingu stjórnarinnar á þeim málum, er fyrir hana yrðu lögð, ef þrír menn skipuðu hana í stað eins. Og í þriðja lagi fengist meiri trygging fyrir varanlegum friði innan pólitísku flokkanna utan þings og innan.

Jeg ætla nú að víkja að hverju atriðinu fyrir sig. Þriðja atriðið, sem sje trygging fyrir friði inn á við, er lítilsvirði og fellur um sjálft sig. Því það getur ekki verið meiningin í framtíðinni, að taka sinn ráðherrann úr hverjum flokki, og ef einn flokkurinn yrði í meiri hluta, myndi hann illa sætta sig við einn ráðherra. Það er líka gagnstætt venju annarstaðar. Það er spá mín, að innan skamms geti það mál komið fyrir, er hver flokkurinn um sig lætur sig mikið varða, og lítur sínum augum á, og þá er hætt við, að lítið verði úr friðnum. Þessari ástæðu er því best að sleppa. — Ef jeg sný mjer þá að annari ástæðunni, að með þessu fengist menn í stjórnina, er hefðu sjerþekkingu á hverju einstöku máli, þá tel jeg þá ástæðu ekki meira virði en þá síðasttöldu. Það er auðvitað, að mörg mál koma fyrir stjórnina, og ef hún ætti að hafa sjerþekkingu á sjerhverju þeirra, þá væri ekki nóg, að ráðherrarnir væru þrír, og ekki nóg þó þeir væru þrisvar sinnum þrír, því að þó einn ráðherrann hafi sjerþekking í dómsmálum, annar í bankamálum og þriðji í landbúnaðarmálum, þá koma fyrir stjórnina ótal fleiri mál, sem ekki heyra hjer undir, og þyrfti þá stjórnin, þrátt fyrir það, þótt hún væri þríhöfðuð, að leita álits sjerfróðra manna, eins og ráðherrarnir hingað til hafa gjört. Sjest best á þessu, hversu lítilsvirði þessi ástæða verður.

Þá kem jeg að fyrstu ástæðunni, og virðist mjer hún eina frambærilega ástæðan Jeg hefði líka getað skilið hana, ef hún hefði verið aðalástæðan, til þess að þetta frv. er fram komið, en mjer er kunnugt um, að svo er ekki. Hin sanna ástæða var, að enginn flokkur var í meiri hluta, svo að hann treysti sjer til að koma að einum manni. Þetta er eina sanna ástæðan, en svo komu flokkarnir sjer saman um að flagga með hinum ástæðunum. Jeg efast ekki um það, ef einhver flokkur hefði haft nægan meiri hluta, þá hefði hann getað valið þann mann í ráðherrasess, er hann best treysti, og tel jeg víst, að sá maður hefði tekið að sjer stjórnina, þrátt fyrir aukin störf, og sjest þá best á því, að það er ekki vegna ofmikilla starfa, að þetta frv. kemur nú fram. Það er mikið rjett, að stríðið hefir aukið störf stjórnarinnar, en það er ekki nýbyrjað nú; hefir þegar staðið í ár. Og ef það eitt er aðalástæðan, þá hefði átt að kalla þing saman miklu fyr.

Jeg held, að það hefði verið heppilegast, að þetta mál hefði fengið að bíða, að minsta kosti til næsta þings, svo þjóðin og þingmenn fengi að átta sig betur á því. Málið hefir líka fengið mikla mótspyrnu út um land. Jeg finn þess vegna enga ástæðu til, að hamra það í gegn nú og greiði því atkvæði móti því.