29.12.1916
Efri deild: 8. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Hannes Hafstein:

Mjer skildist svo, sem það væri aðalatriðið í ræðu háttv. þm. Ísf. (M. T.) að rökstyðja brtt. sína á þingskj. 36

Hann telur 3. gr. frumvarpsins óþarfa, af því að hið sama standi í stjórnarskránni og má vera að greinin sje ekki nauðsynleg. Hins vegar er það alls ekki óvenjulegt, að stjórnarskrárákvæði sje tekin upp í almenn lög, og í nú gildandi landslögum er ákvæði um landritaraembættið bæði í stjórnarskránni og í lögum um skipun á æðstu umboðsstjórn landsins frá 3. okt. 1903. Á líkan hátt, eða þó enn frekar, er endurtekið í kosningalögunum það, sem einnig er ákveðið í stjórnarskránni. Jeg sje því ekki, að það gjöri neitt til, þó þetta um niðurlagningu landritaraembættisins standi hjer í frumvarpinu, að minsta kosti ekki svo, að ástæða sje til fyrir þá sök, að tefja málið með því, að senda það aftur niður í Nd.

Jeg sje því ekki betur en að óhætt sje og enda sjálfsagt, að fella þessa brtt. á þingskjali 36.